Tómas mætti í Lederhosen

Félagarnir í partíinu sem haldið var fyrir þorrablót Stjörnunnar í …
Félagarnir í partíinu sem haldið var fyrir þorrablót Stjörnunnar í gærkvöldi. Ljósmynd/Ólafur Már Björnsson

„Ég held að alla stráka dreymi um að eignast Lederhosen,“ segir Tómas Guðbjartsson, yfirlæknir á Landspítala. Hann fékk boð í þorrablótspartí hjá Ólafi Má Björnssyni augnlækni sem haldið var í gærkvöldi og mætti í Lederhosen úr fjallageitaskinni og peysu og sokkum í stíl og hafði þar með betur í veðmáli á milli þeirra félaganna.

Búningurinn er algeng sjón á hátíðinni Oktoberfest en öllu fágætari í partíum á Íslandi. Tómas og Ólafur heimsóttu vin sinn Peter Habeler í Zillertal í Austurríki um áramótin en sá síðastnefndi er þekktur fyrir að hafa fyrstur manna náð á topp Everest án viðbótarsúrefnis árið 1979.

„Við er búnir að bjóða honum til Íslands og hann hefur boðið okkur að heimsækja sig. Hann er oft í svona peysum þegar við hittum hann. Ég keypti mér svona peysu í fyrra, við köllum hana Habeler-peysuna hérna heima.

Mig langaði til að kaupa mér Lederhosen líka en konan mín bannaði mér það. Henni fannst þetta bara alveg fáránlegt. Ég var með þær á borðinu og þurfti að skila þeim. Núna fór hún á einhverja listasýningu og ég notaði tækifærið og skaust og keypti buxurnar,“ segir Tómas.

Hann segir Ólaf vin sinn hafa verið álíka hneykslaður og eiginkonan en það átti þó eftir að breytast.

„Ég sagði við hann að þetta væri mjög töff og ég myndi koma í þessu í partí til hans. Svo bauð hann mér í þetta þorrablótspartí í gær. Ég leit svo á að þetta væri svona veðmál, hvort þetta væri flott eða ekki flott. Það er alveg hægt að segja að þetta hafi vakið athygli. Fólk vildi fá að koma við þær og svona. Þetta er aðallega veðmál á milli okkar hvort ég myndi þora að fara í þetta á Íslandi,“ segir Tómas einnig.

Ólafur hyggst fjárfesta í búningi sem þessum í næstu ferð og ætla vinirnir að ganga saman á fjöll í sumar í buxunum. Aðspurður segir Tómas að buxurnar séu gríðarlega þægilegar. „Mér skilst að þær séu ekki jafn þægilegar þegar þær eru blautar,“ segir hann og hlær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert