Vond spá fyrir Holtavörðuheiði

mbl.is/Björn Jóhann

Það kólnar á fjallvegum, einkum vestanlands, í dag en áfram verður hiti yfir frostmarki á láglendi. Það hvessir jafnframt og frá því um hádegi og fram á kvöld verður suðvestan 15-20 m/s á fjallvegum eins og Holtavörðuheiði, Þröskuldum og Steingrímsfjarðarheiði með éljum og vaxandi hálku um leið og kólnar niður fyrir frostmark. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Vegir á Suðurlandi eru að mestu leyti auðir en þó er flughált í Grafningi og  hálkublettir á örfáum vegum.

Á Vesturlandi eru vegir víða greiðfærir en hálka er á Laxárdalsheiði. Hálka og hálkublettir eru á Vestfjörðum.

Á Norðurlandi er hálka og hálkublettir. Flughált er á Hólasandi og Dettifossvegi.

Hálka er víða á Austurlandi. Greiðfært er með suðausturströndinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert