Hafa engan samning gert

Hafnartorg
Hafnartorg PK arki­tekt­ar

„Það eina sem hefur gerst í þessu er að fulltrúar ráðuneytisins hafa fallist á boð þessa fyrirtækis um að eiga viðræður um aðkomu að þessu húsnæði á einn eða annan hátt. Þar eru menn opnir fyrir að skoða ólíkar leiðir og ég ætla ekki að fara að skipa mönnum fyrir úr þessari pontu eða annars staðar frá um það hvaða lending á að nást í því á meðan við vitum ekki hvað raunverulega stendur þarna til boða.“

Þetta sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra á Alþingi í dag í svari við fyrirspurn frá Svandísi Svavarsdóttur, þingflokksformanni Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs. Svandís innti ráðherrann eftir svörum um fréttir þess efnis að forsætisráðuneytið væri að skoða þá hugmynd að leigja skrifstofuhúsnæði sem til standi að reisa við Hafnartorg gegnt Arnarhóli í Reykjavík og hefði jafnvel í hyggju að skipta á þeirri lóð og lóð sem stjórnarráðið á við hlið atvinnuvegaráðuneytisins við Skúlagötu. Spurði Svandís hvaða lagheimild væri fyrir hendi til að ráðstafa eignum ríkisins með þeim hætti. Spurði hún hvort búið væri að samþykkja málið í ríkisstjórn og hvort Sigmundi hafi verið falið að sjá um það.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Forsætisráðherra sagði að málið hefði þannig ekki verið tekið fyrir í ríkisstjórn enda væri enn sem komið er ekkert mál fyrir hendi til að taka fyrir í henni. Ef sú staða kæmi upp þá myndi þartilbærir aðilar fá það til umfjöllunar og afgreiðslu. Sagði hann ekkert óeðlilegt við það að skoða þessi mál og þetta væri heldur ekki í fyrsta sinn sem það væri gert. lengi hafi verið til skoðunar að finna nýtt húsnæði fyrir stjórnarráðið eða hluta þess. Til að mynda væri forsætisráðuneytið að missa húsnæði sem það hefði haft fyrir meginhluta starfsemi sinnar við Hverfisgötu. Þörfin væri því orðin knýjandi. Kæmi til undirritunar samnings í þessum efnum færi það að sjálfsögðu eftir þeim reglum sem um það giltu.

Svandís sagði það í besta falli undarlegt ef Sigmundur teldi það viðeigandi að ræða um ráðstöfun ríkiseigna án þess að það hefði verið rætt í ríkisstjórn eða sérstaklega við það ráðuneyti sem með málið færi sem væri fjármálaráðuneytið. Sagði hún nauðsynlegt að fá upplýsingar um málið upp á borðið til þess að Alþingi gæti sinnt eftirlitshlutverki sínu. Forsætisráðherra sagði ályktanir Svandísar alfarið rangar. Samráð hefði að sjálfsögðu verið haft við fjármálaráðuneytið um húsnæðismál stjórnarráðsins og þar með talið í þessu tilfelli. Ítrekaði hann að kæmi til þess að einhvers konar samningur yrði gerður færi hann að sjálfsögðu í gegnum rétta aðila.

Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður VG.
Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður VG. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert