Svörin á við fimm doktorsritgerðir

Guðrún hefur verið ötul við að svara spurningum áhugasamra.
Guðrún hefur verið ötul við að svara spurningum áhugasamra.

Í dag birtist þúsundasta svar Guðrúnar Kvaran fyrir Vísindavef Háskóla Íslands, samkvæmt tilkynningu frá háskólanum. Segir í tilkynningunni að fjöldi svaranna beri vitni um einstakan árangur og elju Guðrúnar, „og um leið mikinn og lifandi áhuga spyrjenda á íslenskri tungu, málfari, orðatiltækjum og almennt öllu því sem snertir málvísindi.“

Heildarorðafjöldi þeirra svara sem Guðrún hefur skrifað fyrir vefinn er um það bil 200 þúsund orð, að því er segir í tilkynningunni. Hefðbundin lengd á doktorsritgerð er stundum um 40 þúsund orð og mætti því segja að svörin fylli hæglega fimm doktorsritgerðir.

Vangaveltur um Parísarhjól

Spurningin sem krafðist þúsundasta svars Guðrúnar barst Vísindavefnum eftir umræðu á Twitter. Þar velti fólk orðinu parísarhjól fyrir sér og fannst að það væri eitthvað sem Vísindavefurinn gæti útskýrt betur. Þykir það sýna hversu margir treysta því að fá úrlausn sinna mála um tungumál og málvísindi hjá Guðrúnu á Vísindavefnum.

Dæmi um spurningar sem Guðrún hefur svarað á vefnum:

Guðrún Kvaran lauk cand. mag.-prófi í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands árið 1969 og doktorsprófi í indóevrópskri samanburðarmálfræði við háskólann í Göttingen í Þýskalandi árið 1980.

Hún starfaði við Orðabók Háskólans um áratugaskeið sem sérfræðingur, síðar forstöðumaður hennar og prófessor við hugvísindasvið Háskóla Íslands. Guðrún hefur verið formaður Íslenskrar málnefndar undanfarin ár auk þess sem hún er prófessor emerita við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Öll þúsund svör Guðrúnar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert