Sýknaður af því að olíumenga sjó

Héraðsdómur Norðurlands eystra
Héraðsdómur Norðurlands eystra mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Héraðsdómur Norðurlands eystra sýknaði vélstjóra á fiskiskipi af ákæru um brot á lögum um varnir við mengum hafs og stranda. Honum var gefið að sök að hafa dælt olíumenguðum sjó út í Breiðafjörð en var sýknaður í ljósi neitunar sinnar og skorts á sönnunargögnum.

Áhöfn TF-LÍF, þyrlu Landhelgisgæslunnar, sá flekk sem virtist vera olíuflekkur við skipið þar sem það var að veiðum á Breiðafirði um tólf sjómílur norður af Hellisandi í febrúar í fyrra. Í kjölfarið var skipstjóri og vélstjóri skipsins ákærðir fyrir brot á lögum um varnir við mengun hafs og stranda. Síðar var fallið frá ákærunni á hendur skipstjóranum.

Vélstjórinn neitaði sök og bar að hann hafi losað sjó sem hafði komið inn í skipið þar sem hann hefði talið hættu á að hann kæmist í rafbúnað skipsins. Í sjónum sem hann dældi úr skipinu hafi verið blanda blóðvatns vegna aðgerðar skömmu áður, svartliðum koltvísýringi úr fremsta brunni lestar skipsins og lítils háttar olíumengun úr vélarrúmi þess.

Í dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra frá 19. janúar segir að ákæruvaldinu hafi ekki tekist að hnekkja framburði vélstjórans um að nauðsynlegt hafi verið að dæla sjónum úr skipinu til að tryggja öryggi þess.

Þá væri ekki hægt að byggja sakfellingu flekknum sem áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar hafi séð úr lofti. Engin sýni hafi verið tekin úr honum og því taldi dómurinn ósannað að styrkur olíu í austrinum hafi verið yfir þeim mörkum sem kveðið sé á um í lögum. Vélstjórinn var því sýknaður af ákærunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert