Verðlaunahafar á leið til Boston

Verðlaunahafar í Hnakkaþoni Háskólans í Reykjavík og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi halda til Boston á stærstu sjávarútvegssýningu heims í mars. Verkefnið í ár gekk út á að laga sjávarútvegsfyrirtækið Þorbjörn hf. að alþjóðlegum umhverfisstöðlum ásamt því að gera það samkeppnishæfara og hagkvæmara.

Fimm manna hópur átti sigurverkefnið sem samanstóð af nemendum úr tæknifræði, lögfræði og viðskiptafræði, þau lögðu fram áætlun um hvernig Þorbjörn hf. í Grindavík geti aukið notkun rafmagns á línubátum og frystitogara félagsins, bæði við veiðar og við bryggju. Einnig lögðu þau til að Þorbjörn, yrði fyrsta sjávarútvegsfyrirtækið á Íslandi til að taka upp ISO14001 umhverfisstaðal. 

Ingi Svavarsson, nemandi í véla- og orkutæknifræði er einn nemenda í sigurteyminu og hann segir það hafa verið mikla áskorun að gera fyrirtækið umhverfisvænna þar sem það sé nú þegar að gera vel í þeim efnum.

mbl.is var í Háskólanum í Reykjavík í dag þegar verðlaunin voru veitt.

Í Hnakkaþoni HR og SFS reyna nemendur HR með sér í lausn verkefna sem tengjast íslenskum sjávarútvegi og í dómnefnd sátu: Ari Kristinn Jónsson, rektor HR; Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair; Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips; Þóranna Jónsdóttir, forseti viðskiptadeildar HR; Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands; Heiðar Hrafn Eiríksson, skrifstofustjóri Þorbjarnar; Ketill Berg Magnússon, framkvæmdastjóri FESTU, Miðstöðvar um samfélagsábyrgð fyrirtækja og Karen Kjartansdóttir, samskiptastjóri SFS.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert