Landsbankinn „hefur ekkert að fela“

Bankaráð Landsbankans hafnar ásökunum um að bankaráð eða starfsmenn Landsbankans …
Bankaráð Landsbankans hafnar ásökunum um að bankaráð eða starfsmenn Landsbankans hafi unnið að sölu hlutar bankans í Borgun af óheilindum mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landsbankinn hefur í dag sent Alþingi samantekt vegna sölu á 31,2% hlut Landsbankans í Borgun. Þar er að finna ítarlegar upplýsingar um söluferlið og álitamál sem tengjast því. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum. 

Þar kemur fram að Landsbankinn afhenti í desember 2014 Fjármálaeftirlitinu (FME) öll umbeðin gögn um söluna á hlutnum í Borgun. Í sama mánuði fóru stjórnendur bankans á fund efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis til að fjalla um málið og svara spurningum nefndarmanna.

Bankaráð Landsbankans hefur fylgst með söluferli Borgunar frá upphafi og ítrekað fjallað um það á fundum sínum. Bankaráð hefur í umfjöllun og ákvörðunum sínum um málið ávallt haft hagsmuni bankans og eigenda hans að leiðarljósi.

„Bankinn dró lærdóm af gagnrýni á söluferli Borgunar og breytti árið 2015 stefnu sinni um sölu eigna. Stefna sem áður gilti eingöngu um sölu á fullnustueignum gildir nú einnig um sölu á öðrum eignum bankans,“ segir í tilkynningunni.

„Bankaráð hafnar ásökunum um að bankaráð eða starfsmenn Landsbankans hafi unnið að sölu hlutar bankans í Borgun af óheilindum. Landsbankinn hefur birt ítarlegar upplýsingar um söluferlið enda hefur bankinn ekkert að fela.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert