Hafa ráðið við fjöldann hingað til

Silfra á Þingvöllum.
Silfra á Þingvöllum. mbl.is

Rúmlega tuttugu þúsund manns köfuðu í Silfru á síðasta ári og gerir þjóðgarðsvörður á Þingvöllum ráð fyrir að aðsóknin gæti jafnvel orðið enn meiri á þessu ári.

Aðsóknin nálgast öryggismörk en samstarf við ferðaþjónustu- og köfunarfyrirtæki hefur gengið vel. Óskað hefur verið eftir því að fleiri gjár verði opnaðar til að dreifa álaginu en þjóðgarðsnefnd hefur alltaf hafnað slíkum beiðnum.

Kona á þrítugsaldri er þungt haldin í öndunarvél á gjörgæsludeild Landspítalans eftir köfunarslys í Silfru á Þingvöllum um hádegi í gær. Konan var flutt með þyrlu Landhelgisgæslunnar og er líðan hennar alvarleg.

Frétt mbl.is: Þungt haldin á gjörgæslu

Vinsældir þess að kafa í Silfru hafa vaxið með auknum straumi ferðamanna hingað til lands en fyrir fimm árum köfuðu fimm þúsund í gjánni. Köf­un­ar­slys í Silfru hafa verið al­geng síðustu ár og oft hef­ur mátt litlu muna, stund­um hárs­breidd á milli lífs og dauða. Tvö bana­slys hafa orðið síðustu fimm ár, Íslend­ing­ur lést í des­em­ber 2012 og er­lend­ur ferðamaður lést þar 2010. 

Almennt farið eftir fyrirmælum

Ólafur Örn Haraldsson þjóðgarðsvörður sagði í samtali við Morgunblaðið í byrjun september á síðasta ári að aðsókn í köfun í Silfru væri að nálgast öryggismörk.

Er komið að þessum mörkum?

„Það gildir það sama og ég sagði það. Þá var aðsóknin það mikil að með sama áframhaldi þá nálguðumst við öryggismörk. Þá má líka bæta því við að við erum ekki eingöngu að tala um öryggi heldur erum við líka að tala um hvort sú þjónusta sem er boðin stendur undir væntingum. Á einhverjum stað, með endalausri fjölgun, hlýtur auðvitað sú stund að koma að menn eru að það miklu fjölmenni að þeir fá ekki endilega það sem þeir hefðu viljað,“ segir Ólafur Örn í samtali við mbl.is.

Aðspurður segir hann að ekki sé miðað við ákveðinn fjölda. „Við höfum alveg ráðið við þetta og ég legg mikla áherslu á að við eigum mjög gott samstarf við köfunar- og ferðaþjónustufyrirtækin og þau eru öll að vilja gerð að leysa þetta. Þau taka fullan þátt í þessum hugleiðingum og vinnu,“ segir Ólafur Örn.

Þá hafi fyrirtækjunum almennt gengið vel að fara eftir þeim fyrirmælum og reglum sem gilda um köfun á Þingvöllum.

„Þau fara eftir því sem best við vitum eftir öryggisreglum og okkar hlutverk er fyrst og fremst þjónustuhlutverk. Við erum ekki eftirlitsaðilar og það eru ekki við sem setjum fyrirmælin og reglurnar. Við sjáum um stíga, palla, salerni, fráleggsborð og bílastæði. Við skráum hópa og einstaklinga í Silfru og sendum þeim rukkun og við reynum að hafa áhrif á það hversu hratt hóparnir fara ofan í hver á eftir öðrum,“ segir Ólafur Örn.

Vinsælast er að kafa í morgunsárið á sumrin.
Vinsælast er að kafa í morgunsárið á sumrin. mbl.is/Ómar

Skiptar skoðanir um þjónustuna

Ólafur Örn á von á því að aðsóknin verði svipuð í ár og telur að frekar muni bæta í en draga úr. Vinsælast er að kafa í morgunsárið á sumrin.  

„Þetta gengur mjög vel, ótrúlega vel miðað við þennan mikla fjölda. En það segir sig sjálft, það er ekki bara okkar viðhorf og heldur líka þessara fyrirtækja, við hljótum að hugsa um það að einhversstaðar hljótum við að koma að þeim mörkum að það séu það margir að þetta geti ógnað öryggi og við séum ekki með þá þjónustu sem viðskiptavinir óska eftir,“ segir Ólafur Örn.

Hann bætir við að skiptar skoðanir séu um hvort bjóða eigi upp á þjónustu sem þessa í þjóðgarðinum.

„Við höfum litið svo á að þjóðgarðurinn á einmitt að vera vettvangur þeirrar starfsemi sem þar getur rúmast. Það kemur ekki bara fram hvað köfun varðar, það eru líka fyrirtæki sem koma þarna með stóra og smáa hópa og eru í skoðunarferðum, það er fólk sem fer í gönguferðir út í hraunið, það er fólk sem kemur að veiða og er í sumarbústöðum. Allt þetta fólk er velkomið og á að eiga sitt svigrúm þarna og kafararnir alveg eins,“ segir Ólafur Örn.

Þá hefur einnig verið rætt um hvort hægt væri að dreifa álaginu með því að opna fleiri gjár fyrir köfun og segir Ólafur Örn að það hafi aldrei verið samþykkt.

„Það má kafa í annarri gjá, Davíðsgjá. Hún er austar og hún er eiginlega úti í Þingvallavatni. Þar er tærleiki vatnsins aftur á móti miklu minni en í Silfru og það hefur aldrei þótt eins eftirsóknarvert að kafa þar. En við höfum alls ekki viljað útvíkka það svæði sem kafað er á. Það hefur verið leitað eftir því að fara í fleiri gjár en það hefur aldrei verið leyft,“ segir Ólafur Örn að lokum.

Óheimilt er að kafa einn síns liðs í Silfru.
Óheimilt er að kafa einn síns liðs í Silfru. mbl.is/Ómar

Óheimilt að hafa dýpra en 18 metra

Á vefsíðu Stjórnartíðinda er bæði að finna reglur og tilmæli um vegna yfirborðs- og djúpköfunar í þjóðgarðinum á Þingvöllum.

Markmiðið með tilmælunum er að bæta öryggi við köfun og yfirborðsköfun í þjóðgarðinum á Þingvöllum. Til að ná því markmiði eru settar tilteknar reglur um starfsemi þeirra sem bjóða upp á ferðaþjónustu í köfun og yfirborðsköfun í þjóðgarðinum sem og þeirra sem kafa þar á eigin vegum.

Í tilmælunum segir að köfun og yfirborðsköfun sé ætíð á eigin ábyrgð þess sem það gerir. Óheimilt er að kafa einn síns liðs í Silfru og skulu kafarar kynna sér vel aðstæður og þær reglur sem gilda um köfun í Silfru og almennar umgengnisreglur í þjóðgarðinum.

Ferðaþjónustufyrirtæki sem selja ferðir í köfun í þjóðgarðinum á Þingvöllum skulu uppfylla öll opinber skilyrði fyrir rekstri ferðaþjónustu og hafa nauðsynleg leyfi og tryggingar í gildi fyrir slíkri ferðaþjónustu. Ferðaþjónustufyrirtæki skulu hafa öryggis- og viðbragðsáætlun, sem samþykkt er af Siglingastofnun Íslands.

Kafarar í Silfru skulu á hverjum tíma ekki vera fleiri en átta að grynningum skilgreindum á korti í fylgiskjali. Gestir með hverjum leiðsögumanni skulu ekki vera fleiri en fjórir hverju sinni við köfun í Silfru. Gestir með hverjum leiðsögumanni skulu ekki vera fleiri en átta hverju sinni við yfirborðsköfun í Silfru. Ekki er heimilt að kafa dýpra en átján metra í Silfru. Þá er löfun í hella, ranghala og göng er bönnuð.

Einnig er að finna tilmæli um öryggiskröfur og búnað.

Þingvellir er vinsæll áfangastaður meðal erlendra ferðamanna.
Þingvellir er vinsæll áfangastaður meðal erlendra ferðamanna. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert