Reiknar út mikilvægi loðnunnar

Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað.
Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. mbl.is/Sigurður Bogi

Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar, hefur tekið saman hvað 100 þúsund tonna loðnukvóti þýðir í tölum fyrir fyrirtæki, starfsfólk og ríkissjóði.

Á núverandi vertíð verður íslenskum útgerðum heimilt að veiða um 100 þúsund tonn af loðnu.

Í pistli á vefsíðu Síldarvinnslunnar skrifar Gunnþór að áætluð vinnsluverðmæti úr 100 þúsund tonnum af loðnu séu 11,6 milljarðar króna. Þrettán fyrirtæki í tíu sveitarfélögum koma að veiðum og vinnslu loðnunnar.

17 skip, 260 sjómenn og 600 í landi

„Áætla má að launagreiðslur í tengslum við veiðar og vinnslu á 100 þúsund tonnum af loðnu nemi um 2,8 milljörðum króna. Það eru 17 skip sem koma að veiðunum, 4 vinnsluskip og 13 skip sem landa aflanum til vinnslu. Á þessum skipum má reikna með að séu 260 sjómenn í það minnsta og hafa þeir lifibrauð sitt af veiðunum. Í landi má reikna með að starfi um 600 manns við loðnuvinnsluna. Hafa tekjur á loðnuvertíð jafnan vegið þungt í árstekjum sjómanna á loðnuskipunum og starfsmanna þeirra fyrirtækja sem annast vinnsluna,“ skrifar Gunnþór.

Áætluð vinnsluverðmæti úr 100 þúsund tonnum af loðnu er um …
Áætluð vinnsluverðmæti úr 100 þúsund tonnum af loðnu er um 11,6 milljarðar króna, að sögn Gunnþórs. mbl.is/Sigurður Aðalsteinsson

2,8 milljarðar í skatttekjur

Hann bætir við að áætlaðar skatttekjur ríkisins af 100 þúsund tonnum af loðnu nemi tæplega 2,8 milljörðum króna.

Að mati Gunnþórs er afar mikilvægt að láta krónur og aura ekki ákveða nýtingu úr fiskistofnum og því þurfi að byggja hana á eins góðum rannsóknargögnum og mögulegt er.  „Það hlýtur að vera óeðlilegt í ljósi þess sem að framan er sagt að hafrannsóknaskip okkar liggi bundin við bryggju,“ skrifar hann.

„Það er því grundvallaratriði að leggja áherslu á að rannsaka loðnuna sem best því það eru svo gríðarlegir hagsmunir í húfi fyrir fyrirtækin, loðnubæina, starfsfólk og ríkissjóð. Það hefur ríkt gott samstarf á milli Hafrannsóknastofnunar og loðnuútgerðanna þegar þurft hefur að mæla loðnustofninn. Skoða þyrfti hvort ekki mætti auka það samstarf enn frekar og nýta tækjabúnað fiskiskipanna til upplýsingaöflunar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert