Þurfa að hlusta á vilja fólksins

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG.
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG. mbl.is/Styrmir Kári

„Ég held að háttvirtir þingmenn verði að hlusta eftir þessari kröfu landsmanna, meira en 50 þúsund landsmanna, um að forgangsraða í þágu heilbrigðiskerfisins,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, á Alþingi í dag og vísaði þar til undirskriftasöfnunar Kára Stefánssonar, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, þar sem þess er krafist að 11% af landsframleiðslu verði varið til heilbrigðiskerfisins.

Hins vegar vöknuðu upp spurningar þegar þingmenn stjórnarmeirihlutans spyrðu að því hvar taka ætti peningana. „Þarna komum við að grundvallarspurningar í íslenskum stjórnmálum sem snýst um það hver á umfang samneyslunnar að vera og hvernig nákvæmlega ætlum við að fjármagna hana,“ sagði Katrín. Sakaði hún stjórnarmeirihlutann um að hafa unnið markvisst að því að veikja tekjustofna ríkisins. Meðal annars með lækkun veiðigjalda og breytingum á skattkerfinu. VG hefði lagt til fyrir síðustu kosningar að tekjurstofnar ríkisins yrðu óbreyttir.

„Ég held að þessi undirskriftasöfnun, sem snýst fyrst og fremst um þetta, um það hvert umfang samneyslunnar eigi að vera og hvernig nákvæmlega þurfa þá stjórnmálamenn að svara því eigi að fjármagna hana, sýni að almenningur vill setja þessi mál á dagskrá. Og ég held að háttvirtir þingmenn megi ekki daufheyrast við því heldur taka alvarlega þann ríka vilja sem þarna birtist í að efla innviði samfélagsins okkar og þá þarf auðvitað að horfa til tekjuöflunarinnar herra forseti og það þarf nýja hugsun í þeim málum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert