Verið að mismuna íbúum

Jón Óskar segir Íslandspóst mismuna dreifbýlinu.
Jón Óskar segir Íslandspóst mismuna dreifbýlinu.

Jón Óskar Pétursson, sveitarstjóri Skútustaðahrepps, segir að boðaðar breytingar á póstdreifingu í sveitarfélaginu séu  hrein og klár mismunum.

Hinn 1. mars næstkomandi ætlar Íslandspóstur að fækka dreifingardögum pósts í Mývatnssveit.  

Í bókun á fundi sveitarstjórnar kemur fram að um grófa mismunun sé að ræða sem mun þýða þjónustuskerðingu fyrir fyrirtæki og íbúa á svæðinu, sem mun skerða samkeppnishæfni þess.  

„Það er eins það sé verið að mismuna á milli dreifbýlis og þéttbýlis. Af hverju er ekki verið að dreifa jafnoft í hinum dreifðu byggðum eins og þéttbýlinu? Við viljum sitja við sama borð og aðrir í því,“ segir Jón Óskar.

Hann segist ekki hafa fengið útskýringar á þessum breytingum en reiknar með því að ætlunin sé að spara peninga.

Eins og málum er háttað núna getur fólk sótt póstinn sinn í póstafgreiðslu í Reykjahlíð. Þangað er pósturinn keyrður á hverjum degi og honum dreift þaðan.

„Ef það á að fara að dreifa í þrjá daga aðra vikuna og tvo hina þá  liggur ekki  fyrir hvort pósturinn verður keyrður daglega í póstafgreiðsluna eða hvort hann verður bara keyrður tvisvar í viku aðra vikuna.“

Þá segir hann spurningu hvort fólk sem vilji þá nálgast póstinn utan póstdreifingardaga þurfi að fara til Húsavíkur en þangað er um 60 km akstur.

Uppfært 20:39

Að gefnu tilefni og í framhaldi af tilkynningu um fyrirhugaða breytingu á póstdreifingu í dreifbýli vill Pósturinn koma eftirfarandi á framfæri:

„Fyrirhuguð breyting á póstdreifingu í dreifbýli felur í sér að pósti verður að lágmarki dreift heim til viðskiptavina annan hvern virkan dag í stað fimm virkra daga eins og verið hefur til þessa. Eftir sem áður mun Pósturinn halda uppi daglegum flutningum um allt land og því verður áfram hægt að nálgast sendingar alla virka daga á næsta póstafgreiðslustað."

„Fyrirhugaðar breytingar á fjölda dreifingardaga í dreifbýli segja til um lágmarksdreifingu, en Pósturinn mun áfram leitast við að veita sem besta þjónustu í samræmi við óskir hvers viðskiptavinar. Í dreifbýli jafnt sem þéttbýli verður boðið upp á heimsendingu gegn greiðslu alla virka daga eftir því sem viðskiptavinir óska.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert