Látin eftir köfunarslys í Silfru

mbl.is/Sverrir

Kínversk kona, 26 ára gömul, er látin eftir köfunarslys í Silfru á Þingvöllum. Konan hafði verið ásamt manni sínum á vegum ferðaþjónustufyrirtækis að kafa í gjánni. Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar á Suðurlandi sökk konan niður á um 30 metra dýpi og var henni eftir nokkurn tíma komið upp á yfirborðið meðvitundarlausri.

Lögreglu barst tilkynning um slysið klukkan 12:42 síðastliðinn þriðjudag og var kallað eftir aðstoð þyrlu Landhelgisgæslu Íslands sem flutti konuna á Reykjavíkurflugvöll þar sem sjúkrabíll beið og flutti hana á gjörgæsludeild Landspítalans. Þar var hún úrskurðuð látin í dag.

Þorgrímur Óli Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á Suðurlandi, segir hluta köfunarbúnaðar konunnar hafa verið eftir á botni Silfru og komu sérsveitarmenn frá ríkislögreglustjóra, sérfræðingar Landhelgisgæslu og köfunarsveit slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins á staðinn til að kafa eftir honum.

Að sögn Þorgríms Óla hefur búnaðurinn nú verið fluttur til rannsóknar hjá tæknideild lögreglunnar.

Á þessari stundu er ekki vitað hvað olli slysinu. „Hún sökk niður á 30 metra dýpi, en atvikið átti sér upphaflega stað rétt undir vatnsyfirborðinu. Hún virðist lenda í einhverjum straumi,“ segir Þorgrímur Óli í samtali við mbl.is en talið er að konan hafi verið í kafi í um 10 mínútur áður en henni var komið upp á yfirborðið.

Ekki er vitað hvort konan hafi haft aðgengi að súrefni allan þann tíma sem hún var í kafi, það er hluti rannsóknar lögreglu. „Hún var með allt á sér sem þurfti en við vitum ekki hvort einhver bilun varð í búnaði,“ segir Þorgrímur Óli.

Sendiráð Kína á Íslandi hefur verið í nánu sambandi við mann hinnar látnu og fjölskyldu hennar sem búsett er í Kína. Sjálf var konan búsett í Bandaríkjunum ásamt manni sínum.

Rannsókn slyssins er nú í fullum gangi.

Köf­un­ar­slys í Silfru hafa verið al­geng síðustu ár og oft hef­ur mátt litlu muna, stund­um hárs­breidd á milli lífs og dauða. Er þetta þriðja banaslysið þar frá árinu 2010, en í desember 2012 lést þar Íslend­ing­ur og árið 2010 lést erlendur ferðamaður.

Fyrri fréttir mbl.is:

Þungt haldin á gjörgæslu

Hafa ráðið við fjöldann hingað til

Kona á þrítugsaldri í köfunarslysi

Alvarlegt köfunarslys í Silfru

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert