Ný sönnunargögn voru sett fram

Ragnar Aðalsteinsson situr við hlið Lúðvíks Bergvinssonar, sem er lögmaður …
Ragnar Aðalsteinsson situr við hlið Lúðvíks Bergvinssonar, sem er lögmaður erfingja þeirra Tryggva Rúnars Leifssonar og Sævars Ciesielski. mbl.is/Árni Sæberg

Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður segir að skýrslutaka sem fór fram í dag fyrir endurupptökunefnd í tengslum við Guðmundar- og Geirfinnsmálið, hafi  gengið vonum framar.

Hann segir að afar skýr svör hafi komið frá formanni endurupptökunefndar og sálfræðingunum Jóni Friðrik Sigurðssyni og Gísla H. Guðjónssyni, sem eru sérfræðingar í réttarsálfræði. „Þetta voru allt mjög ítarleg og rökstutt svör og greinagóð að öllu leyti,“ segir Ragnar.  

Hann segir niðurstöður sálfræðinganna vera ný sönnunargögn í öllum skilningi. „Vegna þess að árið 1980 var þessi þekking ekki til. Það hefði ekki verið hægt að koma með gögnin á þeim tíma.“

Frá Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.
Frá Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Vona að Davíð Þór sé sannfærður 

Davíð Þór Björgvinsson, settur ríkissaksóknari í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu, komst að þeirri niðurstöðu síðasta sumar að rök væru fyrir hendi í endurupptöku á máli þeirra sem dæmdir voru í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu.

Ragnar er lögmaður tveggja þeirra, Erlu Bolladóttur og Guðjóns Skarphéðinssonar en Davíð Þór setti fyrirvara um það hvort rök væru fyrir endurupptöku í máli Erlu.

„Ég vona að hann sé sannfærður eftir þennan dag að sá fyrirvari sé ástæðulaus og hann eigi að mæla með endurupptöku á hennar máli," segir Ragnar. 

Rannsóknarlögreglumenn mundu ekkert

Tveir rannsóknarlögreglumenn og svokallaður rannsóknardómari sem störfuðu í tengslum við málið á sínum tíma voru leiddir í vitnastúku en að sögn Ragnars mundu þeir lítið sem ekkert.

Ragnar kveðst vongóður um að Guðmundar- og Geirfinnsmálið verði tekið upp aftur. Skýrslutakan í dag hafi gefið góð fyrirheit.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert