Spáð versnandi veðri seint í kvöld

Á Hellisheiði, Þrengslum og Mosfellsheiði fer að skafa upp úr …
Á Hellisheiði, Þrengslum og Mosfellsheiði fer að skafa upp úr klukkan 20 mbl.is/Ómar Óskarsson

Spáð er versnandi veðri seint í kvöld sunnan- og vestanlands. Á Hellisheiði, Þrengslum og Mosfellsheiði fer að skafa upp úr klukkan 20. Upp úr miðnætti fer að snjóa frá skilum lægðarinnar og  hríðarveður verður sunnan- og suðvestanlands í nótt og fyrramálið. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Víða verður talsverð lausamjöll og dregur í skafla, eins vestanlands og á Vestfjörðum. NA-átt , allt að 15-18 m/s.  Höfuðborgarsvæðið er í betra skjóli og því almennt ekki skafrenningur þar samkvæmt tilkynningunni en veður tekur að lagast upp úr klukkan 9 í morgun.

Hálkublettir eru á höfuðborgarsvæðinu en einnig á Reykjanesbraut. Þá er hálka í Þrengslum, á Sandskeiði og Hellisheiði en einnig á Mosfellsheiði, annars er snjóþekja eða þæfingsfærð á Suðurlandi.

Hálka er víðast hvar á Vesturlandi en snjóþekja í uppsveitum og sumstaðar éljagangur á Snæfellsnesi.

Á Vestfjörðum er hálka eða snjóþekja og víða éljagangur.

Hálka eða hálkublettir eru á Norðurlandi en greiðfært er að mestu með ströndinni á Norðausturlandi.

Á Austurlandi er hálka eða hálkublettir en greiðfært er á Fagradal, Oddsskarði og með ströndinni í Djúpavog. Á Suðausturlandi er hálka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert