Hefur orðið fyrir miklum þrýstingi

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra.
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra. Árni Sæberg

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra viðurkennir að hann hafi orðið fyrir miklum þrýstingi hér heima vegna ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um að taka þátt í refsiaðgerðum gegn Rússum vegna hernaðarbrölts þeirra í Úkraínu.

„Það hefur verið óþægilegt. Og jú, erfitt líka,“ segir Gunnar Bragi.  „Maður vill helst ekki standa í deilum, hvort sem það er við félaga sína eða aðra. Ég hef hins vegar alltaf verið sannfærður um að þetta sé það eina rétta fyrir Ísland og fyrir vikið hefur ekki komið til álita að breyta þessari ákvörðun. Hún stendur. Það er líka mikilvægt að hafa í huga að málið var í upphafi samþykkt í ríkisstjórn. Þetta var ekki bara ákvörðun utanríkisráðherra. Viðbrögðin hafa heldur alls ekki eingöngu verið neikvæð. Ég hef líka fundið fyrir miklum stuðningi vegna þessa máls. Bæði frá mínum félögum í pólitík og líka heima í héraði.“

– Hvaðan hefur þrýstingurinn verið mestur? Á Alþingi, frá atvinnulífinu eða heima í héraði?

„Það er augljóst að þrýstingurinn frá útgerðinni og útflutningsaðilum hefur verið mestur. Í því sambandi ætla ég hins vegar alls ekki að setja alla undir sama hatt. Þetta er gríðarlega stór og fjölbreyttur hópur og margir innan hans hafa lýst yfir stuðningi við þessar aðgerðir. Nokkur hópur hefur hins vegar verið ósáttur enda hefur hann mögulega meiri hagsmuna að gæta en aðrir. Ég virði alveg slík sjónarmið en menn verða samt að gæta að sér. Ganga ekki fram af brúninni.“

– Hafa menn gert það?

„Já, mér hefur fundist það. Þó að miklir sérhagsmunir séu í húfi verða menn að gæta að því að skaða ekki orðspor lands og þjóðar. Það getur tekið langan tíma að vinna tapað traust til baka.“

Nánar er rætt við Gunnar Braga í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert