Búist við að Costco opni um mitt sumar

Það styttist í að risakeðjan Costco opni stórmarkað og bensínstöð …
Það styttist í að risakeðjan Costco opni stórmarkað og bensínstöð við Kauptún í Garðabæ. mbl.is/Árni Sæberg

Arinbjörn Vilhjálmsson, skipulagsstjóri Garðabæjar, segir að hann vænti þess að Costco muni opna verslun sína í Kauptúni í Garðabæ um mitt sumar, eins og að hefur verið stefnt.

„Við erum að vinna að breytingum á aðalskipulagi og deiliskipulagi. Breytingarnar á aðalskipulaginu eru ekki fyrst og fremst vegna Costco, Kauptúni 3, heldur lóðarinnar við hliðina, Kauptún 1, þar sem verið er að auka byggingamagn og stækka bygginguna upp í holtið,“ sagði Arinbjörn í samtali við Morgunblaðið í gær.

Bensínstöð við Kauptún 2

Hann segir að skipulagsbreytingar muni einnig taka til lóðarinnar Kauptún 2, sem er alveg við Reykjanesbrautina. Áður hafi verið gert ráð fyrir veitingastað á lóðinni samkvæmt deiliskipulagi, en þar muni bensínstöð Costco rísa. Því falli niður byggingarleyfi fyrir þúsund fermetra veitingastað, en í staðinn verði bensíndælur og aðstaða fyrir starfsmann á 40 fermetrum.

Arinbjörn segir að deiliskipulagsbreytingin verði auglýst samhliða aðalskipulagsbreytingu. Ákveðin breyting verði gerð á byggingarreit, út af aðkomu að Costco. Þar verði um stækkun að ræða. Auk þess verði bílastæði við Costco talsvert stærri en gengur og gerist, en það sé regla hjá Costco að bjóða upp á stór bílastæði. Ekki sé um stórvægilegar breytingar að ræða.

Arinbjörn segir að skipulagið sé búið að fara í gegnum lýsingarstig og forkynningarstig og fari nú í endanlega auglýsingu, en athugasemdafrestur eftir birtingu sé sex vikur.

Fengið margar ábendingar

„Við höfum fengið heilmikið af ábendingum, í samráði við rekstraraðila á svæðinu, eins og t.d. Bónus. Við höfum gert ýmsar breytingar, eftir að hafa fengið þessar ábendingar.“

Arinbjörn á von á því að skipulagsstarfinu ljúki með vorinu, í apríl eða maí. Aðspurður hvort hann telji að áætlanir Costco um að opna verslun sína um mitt sumar muni standast, sagði Arinbjörn: „Ég á ekki von á öðru og býst við að áætlanir þeirra um að opna um mitt sumar muni standast. Þetta segi ég þó með þeim fyrirvara að ef eitthvað kemur upp á gæti þessu skeikað um einhverjar vikur.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert