Fjöldi fólks á dúfusýningu

Um fimmtíu dúfur voru til sýnis í dag.
Um fimmtíu dúfur voru til sýnis í dag. mbl.is/Styrmir Kári

„Það er búin að vera mikil traffík í dag og við erum yfir okkur ánægð með það,“ segir Ragnar Sigurjónsson, talsmaður dúfnamanna, í samtali við mbl.is. Í dag mættu skraut- og bréfdúfueigendur með dúfurnar sínar til sýningar í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum. Með sýningunni var vakin athygli á fjáröflun Skrautdúfnafélags Hafnafjarðar og Bréfdúfnafélags Íslands en skrautdúfueigendur urðu fyrir töluverði tjóni í bruna í Straumsvík á dögunum.

mbl.is/Styrmir Kári

Um fimmtíu dúfur voru til sýnis í garðinum og tveir til fjórir fuglar af hverri tegund. Nú stunda um fjörtíu manns dúfnarækt á Íslandi. Ragnar segir fólk annað hvort rækta bréfdúfur eða skrautdúfur. Í skrautdúfnaræktun er verið að rækta dúfurnar út frá útliti. „Þú ert að rækta út frá því sem þú sérð.“ Þá eru skrautdúfurnar gjarnan fluttar inn til landsins enda er til mikill fjöldi af þeim í heiminum. Í bréfdúfnaræktun er hins vegar ekki verið að rækta út frá útliti. „Þú ert að rækta eitthvað sem þú sérð ekki, þú ert að rækta viljann til þess að koma heim aftur.“ Bréfdúfurnar eru síðan merktar og þeim sleppt út í náttúruna.

Fjöldi fólks lagði leið sína í garðinn til þess að …
Fjöldi fólks lagði leið sína í garðinn til þess að skoða dúfurnar. mbl.is/Styrmir Kári

Dúfnamenn keppa svo sín á milli og halda sýningar. „Þetta er svona jaðarsport. Það er alltaf lögð svo mikil áhersla á boltaíþróttir en það er til fólk með önnur áhugamál en fótbolta, handbolta og golf,“ segir Ragnar.

Hann segir tjónið í Straumsvík afar bagalegt fyrir dúfnamenn en í brunanum fórust um 200 fuglar. Talið er að eldurinn hafi kviknað út frá lampa sem notaður var til að ylja læðu sem var með kettlinga í dúfnahúsinu. Hugmyndin með sýningunni í dag er því að leggja hönd á plóg og hjálpast að við að byggja húsið aftur upp.

Hægt er að leggja málefninu lið með því að leggja inn á reikning 0152-05-570261 og kt: 140652-4929.

Um 40 manns stunda dúfnarækt á Íslandi.
Um 40 manns stunda dúfnarækt á Íslandi. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert