Gönguferð helguð himingeimnum

Lagt verður af stað frá skrifstofu Ferðafélags Íslands í Mörkinni …
Lagt verður af stað frá skrifstofu Ferðafélags Íslands í Mörkinni 6 klukkan 20:00 í kvöld þaðan sem ekið verður í Heiðmörk. Mbl.is/ Ómar Óskarsson

Háskóli Íslands og Ferðafélag Íslands standa fyrir gönguferð í Heiðmörk í kvöld sem helguð er himingeimnum. Sævar Helgi Bragason, starfsmaður háskólans, mun stjórna göngunni og fræða fólk um himin, stjörnumerkin og blanda saman vísindum við goðsögur. „Við ætlum að njóta þess að horfa saman til himins,“ segir Sævar Helgi.

Markmiðið með ferðinni er að vekja áhuga almennings á fræðslu og hollri útivist og fjölga valkostum í þeim efnum. Lagt verður af stað frá skrifstofu Ferðafélags Íslands í Mörkinni 6 klukkan 20:00 í kvöld þaðan sem ekið verður í Heiðmörk.  Þar mun hópurinn fara í örstuttan göngutúr að ákveðnum stað þar sem horft verður til himins. Sævar Helgi mun fræða fólk um himingeiminn og svara spurningum um norðurljósin, stjörnurnar og vetrarbrautina.

Ferðin var einnig haldin í fyrra en þá mættu um 300 manns. Sævar Helgi vonar að sem flestir láti sjá sig í kvöld en þátttaka er ókeypis og ekki þarf að skrá sig í gönguna. Hann hvetur fólk til að klæða sig vel og bendir þeim sem eiga handsjónauka á að mæta með þá. „Það er hægt að sjá ansi margt með þeim og ég mun benda fólki á ýmislegt.“ Veðurspáin er góð og gert er ráð fyrir heiðskíru en miklum kulda.

Gangan er hluti af verkefni Háskóla Íslands og Ferðafélags Íslands sem hófst á aldarafmæli skólans árið 2011. Í tilkynningu um ferðina segir að í verkefninu nýtist reynsla og þekking fararstjóra Ferðafélagsins og þekking kennara og vísindamanna háskólans og blandist saman í gönguferðinni. 

Sævar Helgi Bragason,verkefnissstjóri vísindamiðlunar við Verkfræði- og náttúruvísindasvið og kennari …
Sævar Helgi Bragason,verkefnissstjóri vísindamiðlunar við Verkfræði- og náttúruvísindasvið og kennari í Háskólalest Háskóla Íslands og Háskóla unga fólksins. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert