„Hún er í okkar augum saklaus“

Konan er í fangelsi í borginni Fortaleza í Brasilíu.
Konan er í fangelsi í borginni Fortaleza í Brasilíu. Kort/Google

Faðir stúlkunnar sem er í haldi í Brasilíu ásamt kærasta sínum grunuð um fíkniefnasmygl, segist þurfa að safna milljónum króna til að geta tryggt grunnþarfir hennar og réttindi í fangelsinu.

Fjölskylda Birgittu Gyðu Bjarnadóttir hratt af stað söfnun fyrir hana eftir að hún var sett í gæsluvarðhald um áramótin.

Að sögn föður hennar, Bjarna Hilmars Jónssonar, mun upphæðin sem safnast fara í uppihald hennar í fangelsinu og lögmannskostnað. „Við viljum treysta hennar grunnþarfir og hennar réttindi. Við viljum að hún fái réttláta málsmeðferð og það kostar þarna niður frá. Það er eitthvað sem þú færð ekki á silfurfati,“ segir Bjarni.

„Eins og mér hefur verið sagt af fólki sem þekkir til þá getum við gleymt öllu sem við vitum um vestrænt réttarfar því þetta er allt öðruvísi í Brasilíu. Fangelsið er bara geymsla og fangarnir þurfa að sjá fyrir sér sjálfir. Hún er í fangelsi fyrir 350 konur en það eru 700 konur þarna.“

Ekki með milljónir í rassvasanum

Hann segir fjölskylduna eiga einhverja peninga en þeir dugi einfaldlega ekki til og því þurfi þau á aðstoð að halda. „Kostnaðurinn hleypur á einhverjum milljónum, sem við erum ekki með í rassvasanum.“

Hingað til hefur nærfjölskylda Birgittu verið duglegust í söfnuninni. Þó hafi velviljað fólk sem þekkir hana ekki neitt lagt upphæð inn á söfnunarreikninginn.

Bjarni biðlar til almennings að taka þátt í söfnuninni og vonar það allra besta fyrir dóttur sína. „Hún er í okkar augum saklaus. Fólk hlýtur að sjá að hún er ekki gerandi í svona máli,“ segir hann.

Fyrir þá sem vilja leggja pening inn í söfnunarsjóð Birgittu Gyðu þá er bankareikningur sjóðsins í Íslandsbanka, Kirkjusandi: 515-14-414444. Kennitala sjóðsins er:  590116-0920.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert