Búið að ná tökum á eldinum

Búið er að ná tökum á eldi sem laus var í húsnæði Hótel Ljósalands í Saurbæ í Dalasýslu. Samkvæmt Jóhannesi Hauki Haukssyni, slökkviliðsstjóra slökkviliðsins í Dalabyggð, gekk slökkvistarf betur en á horfðist í fyrstu þar sem að veðurskilyrði voru góð og lítill vindur. 

Jóhannes Haukur segir að þetta hafi verið tölvuvert mikill eldur en rúmlega þriðjungur hússins er ónýtur. Enginn slys urðu á mönnum þar sem að enginn gestur var á hótelinu. 

Ekki liggur fyrir hver eldsupptök voru. Nú er verið að slökkva í glæðum og síðan verður farið í það að reykræsta. „Við erum búin að ná góðum tökum á eldinum og teljum okkur vera komin í þann fasa að klára þetta.“

Það voru slökkviliðsmenn frá Strandabyggð, Reykhólahreppi og Dalabyggð sem komu að slökkvistarfi. 

Í frétt á vef RÚV kemur fram að tilkynning um eldinn hafi borist á sjötta tímanum í morgun. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert