Fer fram á gæsluvarðhald

Frá aðgerðum slökkviliðsins við Hótel Ljósaland í nótt.
Frá aðgerðum slökkviliðsins við Hótel Ljósaland í nótt. ljósmynd/Vilhjámur H. Guðlaugsson

Farið verður fram á gæsluvarðhald yfir karlmanni sem er grunaður um að hafa kveikt í Hótel Ljósalandi í Saurbæ í Dalabyggð í nótt. Lögreglan segir að málið sé í vinnslu en ekki er búið að leggja gæsluvarðhaldskröfuna formlega fyrir Héraðsdóm Vesturlands. Það verði gert í kvöld eða í nótt.

Ekki fæst uppgefið hversu lengi lögreglan fer fram á að maðurinn sæti gæsluvarðhaldi, en það verður hins vegar gert á grundvelli rannsóknarhagsmuna. „Það er verið að ganga frá pappírum,“ sagði varðstjóri í samtali við mbl.is í kvöld.

Laust fyrir klukkan fimm í morgun barst tilkynning um að ölvaður maður gengi berserksgang við Hótel Ljósaland og fór lögregla á vettvang. Um hálftíma síðar barst tilkynningum að eldur væri laus í byggingunni og var slökkvilið kallað út. Maðurinn var handtekinn á staðnum og færður í fangaklefa. 

Sjónvarvottar sem mbl.is hefur rætt við, segja að aðkoman hafi verið mjög ljót og eldurinn mikill. 

„Þetta leit ekki vel út í byrjun,“ sagði Vilhjálmur H. Guðlaugsson, slökkviliðsmaður í slökkviliði Dalabyggðar, í samtali við mbl.is í dag. Veðrið var hins vegar slökkviliðsmönnum hliðhollt. „Við hefðum ekki mátt vera 10 mínútum seinna á ferðinni, því þá hefði þetta getað farið mjög illa. Við náðum fljótlega þokkalögum tökum á þessu, þannig lagað,“ sagði Vilhjálmur.

Rannsóknardeild lögreglunnar á Vesturlandi er með málið á sinni könnu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert