Hrossin fælast undan skothvellunum

Hjörtur hvetur fólk til að hugsa sig vel um áður …
Hjörtur hvetur fólk til að hugsa sig vel um áður en það skýtur upp flugeldum í grennd við skepnur. Mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Menn eiga að hugsa sig vel um áður en þeir skjóta flugeldum upp í kringum þessi svæði sem skepnur eru á. Afleiðingarnar geta verið mjög slæmar,“ segir Hjörtur Bergstað, formaður hestamannafélagsins Fáks í samtali við mbl.is.

Hann segir að því miður séu mýmörg dæmi þess að fólk hafi dottið af baki og slasað sig illa vegna þess að menn séu að skjóta upp flugeldum fram eftir ári. „Yfir áramótin undirbúa hestamenn sig og hafa kveikt í húsunum og setja á tónlist til að friða hestana frá þessum hljóðum en nú eru menn ekki jafn varir um sig.“ Hann segir að fólk veigri sér við það að ríða út yfir áramótin en nú sé tíðin önnur.

Þá lýsir hann því að hestar séu í eðli sínu flóttadýr og því hræðist þeir hljóðin frá flugeldunum og bregðast við með því að hlaupa í burtu. Hann segir það geta haft slæmar afleiðingar sérstaklega þar sem að hestamennskuna stundi fólk á öllum aldri með misjafnan viðbragðstíma. 

„Það er stórhættulegt og varhugavert að vera að sprengja flugelda núna. Þetta á ekki einungis við í kringum hesta heldur einnig önnur dýr líka og hunda og ketti,“ segir Hjörtur að lokum.

Í reglugerð um skotelda kemur fram að almenn notkun skotelda sé leyfð frá 28. desember til 6. janúar. Þá segir í 12.gr. lögreglusamþykktar fyrir Reykjavíkurborg að meðferð skotvopna í þéttbýli og á almannafæri sé bönnuð nema með undanþágu frá lögreglustjóra. Brot gegn samþykktinni varða sektum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert