„Rannsóknin í molum frá upphafi“

Lög­regla fær­ir Annþór fyr­ir dóm þegar málið var tekið fyrst …
Lög­regla fær­ir Annþór fyr­ir dóm þegar málið var tekið fyrst fyrir.

Lögmaður Annþórs Karlssonar telur að mikið vanti upp á sönnunargögn í dómsmáli gegn honum og Berki Birgissyni til að hægt sé að sakfella hann.

Aðalmeðferð í málinu lauk í Héraðsdómi Suðurlands í dag og stefnt er á að dómur verði kveðinn upp  innan fjögurra vikna

Annþóri og Berki er gefið að sök að hafa banað samfanga sínum Sigurði Hólm Sigurðssyni á Litla-Hrauni fyrir tæpum fjórum árum.

Saksóknari telur næg sönnunargögn fyrir hendi og vill að þeir hljóti 12 ára dóm.

Hólmgeir Elís Flosason, lögmaður Annþórs, segir aftur á móti að engar sannanir séu fyrir hendi að skjólstæðingur sinn hafi átt nokkurn þátt í dauða Sigurðar.

Tekist á um alla þætti málsins

Á þessum lokadegi aðalmeðferðar var hart tekist á um alla þætti málsins, að sögn Hólmgeirs Elíss. „Ég gagnrýndi mest rannsókn málsins sem var að mínu viti algjörlega í molum frá upphafi. Svo gagnrýndi ég Þóru Steffensen, undirmatsmann í réttarmeinafræði. Hún sinnti ekki matinu sínu á hlutlausan hátt eins og henni ber samkvæmt lögum. Hún var dómkvödd og vann með lögreglu í málinu,“ segir Hólmgeir.

„Það komu gríðarlega reyndir sérfræðingar, yfirmatsmenn, fyrir dómi sem hafa allt aðra sögu að segja en Þóra.  Í ljósi þess að þeir eru hlutlausir og hafa gríðarleg reynslu held ég að það hljóti að leggja þeirra mat til grundvallar í málinu. Þeirra mat er til þess fallið að varpa vafa á það hvort refsisverð háttsemi hafi átt sér stað,“ segir hann.

„Það er með ólíkindum að í svona stóru sakamáli, sem hefur tekið næstum fjögur ár, sé það ekki einu sinni hafið yfir vafa hvort brot hafi verið framið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert