Harma nýja löggjöf Dana

Flóttamenn um borð í lest á leið til Svíþjóðar frá …
Flóttamenn um borð í lest á leið til Svíþjóðar frá Kaupmannahöfn. Myndin var tekin í september sl. AFP

Framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar harmar „ómannúðlega“ og „óréttláta“ löggjöf um flóttamenn sem danska þingið samþykkti í síðustu viku og danskir jafnaðarmenn studdu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samfylkingunni.

Þar segir að Samfylkingin heiti því að berjast ætíð gegn því að eignaupptökuákvæði á borð við þau sem samþykkt voru í Danmörku verði að lögum á Íslandi.

„Það eru gríðarleg vonbrigði að lagabreytingar sem heimila dönskum yfirvöldum að gera eignir flóttamanna upptækar og fjölskyldum flóttamanna erfiðara með að sameinast, skulu ná fram að ganga á danska þinginu. Samfylkingin heitir að berjast ætíð gegn því að slík eignaupptökuákvæði verði að lögum á Íslandi og mun tala fyrir þeirri stefnu meðal norrænna og evrópskra jafnaðarmanna.

Framkvæmdastjórn tekur undir með formanni Samfylkingarinnar um að breytingarnar gangi gegn því öllu því sem eðlilegt og mannúðlegt geti talist við móttöku flóttamanna. Framkvæmdastjórn tekur einnig undir með Ungum jafnaðarmönnum um að lögin séu forkastanleg og ekki í anda jafnaðarstefnunnar.

Heimurinn glímir nú við stærri flóttamannavanda en nokkru sinni frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar. Flóttamenn sem yfirgefa heimkynni sín vegna hörmunga af mannavöldum, eiga skilið að fá skjól frá þeim átökum og næði frá ofsóknum í samræmi við alþjóðalög um réttindi flóttafólks. Framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar hvetur til evrópskar samstöðu með mannúð, virðingu, velferð og mannréttindi að leiðarljósi og varar við því að önnur ríki geti fetað í fótspor dönsku ríkisstjórnarinnar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert