„Ísland var draumurinn minn“

Flóttamenn frá Sýrlandi bíða skráningar í Þýskalandi.
Flóttamenn frá Sýrlandi bíða skráningar í Þýskalandi. AFP

Þórunn Ólafsdóttir, sjálfboðaliði á Lesbos og formaður sjálfboðaliða samtakanna Akkeris, deildi pistli á Facebook síðu sinni nú í kvöld þar sem hún segir frá flóttamanni frá Kúrdistan sem á þann draum heitastan að hefja nýtt líf á Íslandi. Þórunn sagði fyrst frá samskiptum sínum við manninn í október, eftir að hún hafði hitt hann í fyrsta skipti á strönd eyjunnar.

Frétt mbl.is: Baðst afsökunar fyrir hönd Íslendinga

Hann er sá eini sem ég hef hitt á þessum slóðum sem stefnir á heimaland mitt - og ótrúleg tilviljun að leiðir okkar skyldu mætast, því hér á eyjunni eru ekki margir Íslendingar og sennilega enn færra fólk sem á sér draum um framtíð á Íslandi. Maðurinn, sem ég hef ákveðið að nafngreina ekki, er nú fastur í Svíþjóð. ,“ skrifar Þórunn.

Hún segir skilaboðin sem sér berist reglulega frá manninum verða átakanlegri með degi hverjum.

„Þegar ég sagði honum fyrst að Ísland væri ómögulegt markmið brosti hann bara og sagði mér að ekkert væri ómögulegt, til Íslands kæmist hann á einn eða annan hátt. Það er átakanlegt að fylgjast með voninni deyja og hvernig reynsla hans af evrópsku flóttamannakerfi er að draga úr honum allan mátt.“

Þórunn segir að við komuna til Þýskalands hafi maðurinn verið krafinn um fingraför sín og hann skikkaður til að skila inn hælisumsókn gegn hans vilja. Eftir þetta hafi hann haldið förinni áfram til Svíþjóðar. Þar hafi honum verið sagt að hann væri í umsóknarferli í Þýskalandi og yrði því sendur aftur þangað. Því mótmælti Kúrdinn og kvaðst aldrei hafa ætlað að sækja um hæli í landinu. Segir Þórunn að á þeim tímapunkti hafi sænsk yfirvöld sett hann í umsóknarferli og tekið af honum vegabréfið.

Situr í sænsku fangelsi

„Á þessum tímapunkti berst mér ákall um hjálp. Hann er fastur í Svíþjóð, fær litla sem enga hjálp og vegabréfið í vörslu yfirvalda. Hann átti lestarmiða til Noregs þetta kvöld og spyr mig ráða, hvort hann eigi að reyna að komast þangað án vegabréfsins. Í Noregi bíður hans vinur og húsaskjól. Ég ráðlegg honum að bíða og sjá, líkurnar á að hann komist til Noregs vegabréfslaus séu afar litlar. Sólarhringsþögn. Daginn eftir berast mér skilaboð. „Ég þarf hjálp. Ég var í fangelsi í nótt. Þú hafðir rétt fyrir þér varðandi Noreg. Geturðu hjálpað mér? Hvað á ég að gera? Ég er svo miður mín, Ísland var draumurinn minn“.“

Þórunn kveðst hafa ráðfært sig við lögfræðinga og fólk sem starfar í hælisleitendakerfinu bæði á Íslandi og í Svíþjóð.

„Það er erfitt að segja honum að það eina sem hann geti gert er að bíða svars frá sænskum yfirvöldum. Biðin gæti tekið marga mánuði. Hann er hræddur, týndur og einn, en heldur þó enn í vonarneista um skjól á Íslandi. Hverju erum við bættari með því að þessi brosmildi, hæfileikaríki maður fái ekki að verða hluti af samfélaginu okkar?“

Íslenski draumurinnÁ undanförnum mánuðum hef ég hitt þúsundir manns á flótta undan stríði í heimalöndum sínum. Mörg þ...

Posted by Þórunn Ólafsdóttir on Monday, February 1, 2016
Þórunn gaf Kúrdanum íslenska lopavettlinga úr fatasöfnun hér á landi …
Þórunn gaf Kúrdanum íslenska lopavettlinga úr fatasöfnun hér á landi þegar leiðir þeirra skildu á Lesbos.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert