Listaverk í HÍ eyðilagt með hnífi

Listaverkið heitir
Listaverkið heitir "Can I Be With You" og er eftir Hallgrím Helgason.

Farið var inn í Odda, byggingu Háskóla Íslands, á föstudagskvöld og listaverk sem þar hékk á vegg eyðilagt. Um er að ræða verkið „Can I Be With You“ eftir Hallgrím Helgason.

Rithöfundurinn Auður Ava Ólafsdóttir er forstöðumaður Listasafns Háskóla Íslands. Hún segist vera slegin.

„Þetta er auðvitað hrikalegt,“ segir Auður Ava í samtali við mbl.is. „Það kemur þarna manneskja inn í skólann rétt fyrir lokun og ræðst á eitt af málverkunum með hníf og gjöreyðileggur það.“ Auður segir það ljóst að um einbeittan ásetning hafi verið að ræða en skornir voru stórir bitar úr verkinu og hefur gerandinn tekið þá með sér að öllum líkindum.

Málið var strax kært til lögreglu og er það í rannsókn.

„Þetta er mjög alvarlegt mál fyrir Listasafn Háskóla Íslands. Okkar stefna hefur alltaf verið að sýna verk í opinberu rými og með þessu er hugmyndafræði safnsins í uppnámi. Safnið hefur verið starfandi í 35 ár og aldrei neitt svona gerst áður.“

Auður segir tjónið fyrst og fremst tilfinningalegt. „Ég er mjög slegin og á erfitt með að skilja hvað liggur að baki svona verknaði. Þetta er mjög hrottalegur verknaður gagnvart listasafninu og listamanninum.“

Hún segir að lögregla hafi getað notfært sér einhverjar upptökur eftirlitsmyndavéla og svo hefur verið rætt við eitt vitni. Allar upplýsingar eru vel þegnar að sögn Auðar og er best að þær berist til lögreglu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert