Reikningar ríkisins opinberaðir

mbl.is/Arnaldur Halldórsson

Fjármála- og efnahagsráðherra hyggst á þessu ári stíga stór skref í átt til þess að bæta aðgengi að fjárhagsupplýsingum ríkisins í samræmi við stefnu stjórnvalda í þeim efnum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fjármálaráðuneytinu. Unnið sé að því að reikningar úr bókhaldi ríkisins, sem til þessa hafi ekki komið fyrir sjónir almennings, verði birtir. Helsta markmiðið með því sé að uaka gegnsæi og aðhald í ríkisrekstri og bæta stjórnsýslu.

„Á undanförnum vikum hefur verið unnið að undirbúningi málsins í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Nú hefur Fjársýslu ríkisins, sem sér um fjármál ríkisins, verið falið að skoða hentugar lausnir svo upplýsingarnar sem birta á uppfylli markmiðin. Á vegum Fjársýslunnar er unnið að því að tryggja að hægt verði með rafrænum hætti að nálgast upplýsingar í fjárhagsbókhaldi ríkisins og skoða bókhaldsfærslur út frá númeri stofnana, tegundarnúmeri og/eða kennitölu birgja, en einnig verði mögulegt að skoða skönnuð fylgiskjöl. Að ýmsu er að huga í þessari vinnu, svo sem öryggismálum, sjónarmiðum um persónuvernd og því hvort hafa eigi fjárhæðartakmörk vegna birtingar reikninga,“ segir ennfremur.

Þá segir að gert sé ráð fyrir að á fyrri hluta þessa árs verði byrjað að opna fyrir aðgang að upplýsingum með þessum hætti og að verkefnið verði að fullu komið til framkvæmda fyrir lok ársins.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert