Sigmundur umkringdur hríðskotabyssum

Ljósmyndir/UNRWA

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra er staddur í Líbanon þar sem hann kynnir sér aðstæður flóttamanna á svæðinu. Í samtali við mbl.is segir hann daginn hafa verið mjög ríkan af ýmsum viðburðum og lærdómi.

„Við hófum daginn snemma með heimsókn á sjúkrastofu sem studd er af Íslendingum. Þar var reyndar líka í gangi kennsla á sama stað og það var mjög gaman að sjá það hversu vel fjármagnið er nýtt. Í einu rými voru tvær pínulitlar kennslustofur en börnin öll þó glöð að vera þar að læra“ segir Sigmundur.

Um leið segir hann að þar hafi verið aðstaða til að taka á móti ófrískum konum og önnur læknisþjónusta fyrir þá sem á henni þurfi að halda. Fólkið hafi beðið í röð en tekið hafi verið á móti öllum og þeim veitt lyf og aðstoð að kostnaðarlausu.

„Maður skynjaði það alveg hversu mikils metið þetta er og menn gerðu sér glögglega grein fyrir því að þetta væri til komið fyrir stuðning að utan.“

Flytja heilsugæsluna á milli staða

Heilsugæslan er að sögn Sigmundar sett upp í húsnæði sem til þess hefur rými, í fyrirfram ákveðinn tíma.

„Til dæmis er hún á mánudögum á einum stað. Svo taka menn allt saman og flytja sig yfir á næsta stað. Þannig að þangað voru allir mættir á mánudegi til að leita sér aðstoðar því þeir vissu að þennan dag yrði heilsugæslan þarna.“

Að lokinni heimsókninni tóku við fundir. Sigmundur hitti þá yfirmann Rauða krossins í Líbanon, þar sem farið var yfir með hvaða hætti stuðningur Íslands nýtist þeim og það ástand sem ríkir í landinu vegna áframhaldandi straums flóttamanna.

„Ég hitti svo forsætisráðherra Líbanon og forseta þingsins. Þeir lýstu hinni flóknu pólitísku stöðu sem hér er uppi. Til dæmis hefur ekki enn tekist að kjósa forseta nú átján mánuðum eftir að kosningar áttu að fara fram.

Þetta var mjög áhugaverð lýsing á þeim endalausu álitaefnum sem menn standa frammi fyrir í þessu landi, en hér var auðvitað borgarastyrjöld í fimmtán ár. Svo hafa þeir verið að reyna að byggja sig upp en mæta hverju áfallinu á fætur öðru, núna síðast þessum mikla straumi flóttafólks sem leggst gríðarlega þungt á þetta litla land.“

Viðkvæmt jafnvægi í þjóðfélaginu

Sem dæmi um þungann nefnir Sigmundur að grunnskóli sé tvísetinn svo hægt sé að kenna börnum aðkomufólks.

„Þá þurfa þeir að setja verulegt fjármagn í að geta tekið á móti öllu þessu fólki. Það auðvitað vekur gremju hjá heimamönnum þegar þeir búa jafnvel við krappari kjör heldur en flóttamenn sem koma inn í landið.

Og allt er þetta í landi þar sem mikil togstreita hefur verið á milli þjóðfélags- og trúarhópa, kristinna, súnnímúslima og sjíamúslima. Ég fékk mjög áhugaverða lýsingu á því hvernig þeim hefði tekist að koma á ákveðnu jafnvægi milli þessara hópa með mjög flóknu pólitísku kerfi.“

Hann segir að núna sé óttast að staðan í nágrannalöndunum og þetta innstreymi aðkomufólks geti raskað þessu jafnvægi.

„Þeir fullyrða þó að enginn hópanna vilji það, hvorki kristnir né súnní- né sjíamúslimarnir. Maður lærir að meta það hversu viðráðanlegri viðfangsefnin eru heima í samanburði við það sem kollegar mínir þurfa að fást við hér.“

Því næst tóku við fundir hjá Sameinuðu þjóðunum, þar sem meðal annars var farið í móttökustöð flóttamanna. Hátt í tvö þúsund manns koma þar inn til skráningar á degi hverjum og segir Sigmundur það hafa verið umfangsmikið á að líta.

„Eftir það fórum við í flóttamannabúðir Palestínumanna, en þeir hafa verið hérna á þessum stað alveg frá 1948. Hér búa þeir sem flóttamenn mann fram af manni,“ segir Sigmundur og bendir á að aðstæður þar séu slæmar til lifnaðar.

„Ný upplifun fyrir Íslending“

„Þetta er í rauninni bara hverfi í borginni. Þetta eru engin tjöld eða slíkt heldur fjöldi húsa þar sem mjög þröngar götur ganga á milli. Hverfið var ætlað þrjú þúsund manns en þeir segja að þar búi nú um tuttugu og tvö þúsund. Innviðir eru laskaðir, vatnið óhreint og rafmagn með þeim hætti að tugir íbúa hafa látist á undanförnum árum af völdum raflosts. Enda sá maður bara raflagnirnar alveg þvers og kruss yfir göturnar, hangandi þar lausar.“

Þegar komið var í búðirnar skildi líbanska öryggisgæslan við hópinn, en með Sigmundi í för voru

„Við tóku vopnaðir Palestínumenn, sem virðast vera nokkurs konar löggæsla í þessum búðum. Einhverjum taldist svo til að þarna væru að minnsta kosti fjörutíu menn vopnaðir hríðskotabyssum þar sem við gengum um göturnar. Það var svolítið ný upplifun fyrir Íslending,“ segir Sigmundur.

„En þeir vildu auðvitað koma í veg fyrir að eitthvað færi úrskeiðis, enda voru með í för leiðtogar þessa samfélags og sendiherra Palestínu hér í landinu.“

Eina leiðin til að draga úr straumnum

Að lokum átti hann fund með stofnun SÞ sem sér sérstaklega um málefni palestínskra flóttamanna. Að sögn Sigmundar var þar farið yfir þær áskoranir sem þau hafa þurft að glíma við. 

„Mér fannst ánægjulegt að skynja að margir eru vel upplýstir um þátttöku Íslands í aðgerðum hér og ánægðir með þá heildstæðu nálgun sem við á Íslandi höfum haft að leiðarljósi, að gera fólki kleift að koma beint úr flóttamannabúðunum til Íslands í stað þess að leggja í hættuför um Evrópu, og á sama tíma að styðja við starfið hér.“

Hann segir marga hafa haft áhyggjur af því að lönd nærri Sýrlandi myndu falla í gleymsku á meðan mikið streymi flóttamanna til Evrópu ætti allan hug stjórnvalda.

„En eins og allir sem ég hef hitt í dag hafa réttilega sagt, eina leiðin til að draga úr straumnum til Evrópu er að gera fólki kleift að búa hér.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert