Hringbraut sek um alvarlegt brot

Sigmundur Ernir Rúnarsson
Sigmundur Ernir Rúnarsson mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Siðanefnd Blaðamannafélags Íslands hefur úrskurðað í máli Björns Inga Hrafnssonar og Vefpressunnar ehf. gegn Hringbraut.is og Sigmundi Erni Rúnarssyni, ritstjóra vefmiðilsins. Málið snýst um frétt Hringbrautar um fjármögnun Vefpressunnar og miðla í eigu hennar þar sem því var haldið fram að fjármunir til rekstrar miðla fyrirtækisins kæmu frá nánum ættingjum og vinum Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra. Fréttin byggði á pistli eftir Ólaf Jón Sívertsen á Hringbraut.is sem að sögn ritstjóra netmiðilsins er dulnefni.

„Fréttin er eingöngu byggð á vangaveltum úr tilvitnaðri grein Ólafs Jóns Sívertsen og ekki nefnt að um tilbúna persónu sé að ræða. Persónan er ekki kynnt til sögunnar sem slík, heldur mega lesendur ranglega ætla að um raunverulegan heimildarmann sé að ræða. Lesendur hafa því alls ekki tök á því að meta traust og trúverðugleika viðkomandi heimildar. Ber fréttin merki óvandaðra vinnubragða og villandi framsetningar þar sem blaðamaður hefur ekki vandað upplýsingaöflun sína og ekki leitast við að sannreyna það sem fram kemur í skrifum Ólafs Jóns,“ segir í úrskurðinum.

Siðanefnd telji umrædda umfjöllun í frétt Hringbrautar brjóta í bága við 3. grein siðareglna Blaðamannafélags Íslands þar sem segi að blaðamaður vandi upplýsingaöflun sína, úrvinnslu og framsetningu. Úrskurðurinn hljóðar svo: „Kærði, vefmiðillinn hringbraut.is, ritstjóri Sigmundur Ernir Rúnarsson, telst brotlegur við þriðju grein siðareglna BÍ. Brotið er alvarlegt.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert