Fráleitt að halda olíuvinnslu áfram

AFP

Áhugi almennings á loftlagsbreytingum hefur stóraukist síðustu misseri, sérstaklega eftir Loftlagsráðstefnuna í París á síðasta ári. Samkomulagið sem samþykkt var á fundinum er mikið afrek og hefði niðurstaðan getað orðið allt önnur. Þetta er meðal þess sem fram kom hádegisfyrirlestrinum „Eftir París: Loftlagsbreytingar og framtíðaráskoranir“ sem Landvernd hélt í dag. Hugi Ólafsson, skrifstofustjóri í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands fluttu erindi um Parísarsamninginn og að því loknu voru pallborðsumræður. 

Í upphafi erindis síns sagðist Hugi skynja mikinn áhuga á málaflokknum, sérstaklega í tengslum við fundinn í París. Hugi sagði stuttlega frá fundinum sjálfum og aðdraganda hans, nefndi fyrsta loflagssamninginn frá árinu 1992, þar sem áherslan var frekar á almennar skuldbindingar heldur en tölulegar. Fimm árum síðar eða 1997 var Kyoto bókunin samþykkt þar sem 40 þróuð ríki skuldbundu sig til þess að minnka losun og hófst það kerfi klukkan 2008 að sögn Huga. Árið 2009 fór fram fundur í Kaupmannahöfn þar sem stefnt var að samkomulagi allra ríkja sem tókst ekki. Að sögn Huga leiddi það til ákveðins vantrausts á getunni til þess að gera samkomulag sem tók nokkur ár að laga.

Allt annað pólítískt andrúmsloft

Á fundinum í París í desember á síðasta ári „skynjuðu menn allt annað pólitískt andrúmsloft og meiri vilja,“ sagði Hugi. Var þetta gífurlega stór fundur með 36.000 þátttakendum og jafnframt stærsti leiðtogafundur sögunnar þar sem að 150 leiðtogar slógu tóninn í upphafi fundarins.

Hugi fór lauslega yfir fundinn sjálfan og hvað var tekist á um. Hann nefndi að m.a. hafi verið rætt hversu metnaðarfullt samkomulagið átti að vera og hversu mikil eftirfylgnin skyldi vera. Þá ræddi hann einnig um sanngjarna skiptingu ábyrgðar sem skiptir miklu að sögn Huga, ekki síst milli ríkra og fátækra.

Sagði hann það hafa verið aðdáunarvert að fylgjast með fundinum og kallaði niðurstöðuna diplómatískt afrek. „Þessi pólitíski vilji var til staðar en samt var það gífurlega flókið mál að ná þessu,“ sagði hann.

Á fundinum í dag var rætt um hlutverk Íslands á fundinum og hvað taki við hér á landi. Hugi nefndi ræðu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra á leiðtogafundinum og inngangserindi forseta Íslands, Ólafs Ragnars Grímssonar á Orkudegi fundarins.

En hvað felst í samkomulaginu og hvert er framhaldið?

Markmiðið er að halda hlýn­un jarðar „vel inn­an við“ 2°C og að kepp­ast að því að hún verði ekki meiri en 1,5°C ef mögu­legt er. Að sögn Huga var nokkuð deilt um síðari hluta markmiðsins.

Þá var einnig lagt til að losun gróðurhúsalofttegunda skyldi ná hámarki eins fljótt og auðið er og minnka síða losun. Farið verður yfir stöðu mála á fimm ára fresti og þá senda ríki inn endurnýju landsmarkmið.

Að sögn Huga snýst framhaldið m.a. um að útfæra Parísarsamkomulagið frekar og ræða við Evrópusambandið og Noreg um verkaskiptingu í þessu sameiginlega markmiði 30 ríkja, að minnka losun um 40%.

Tala meira um hlutina í útlöndum

Íslenskir stjórnmálamenn eiga það til að tala miklu meira um mál eins og loftlagsbreytingar í útlöndum en koma svo heim og vilja ekki kannast við neitt. Þetta kom fram í erindi Árna á fundinum í dag. Nefndi hann máli sínu til stuðnings erindis Gunnars Braga Sveinssonar, á hliðarviðburði ráðstefnunnar þann 5. desember síðastliðinn. Þar talaði hann um súrnun sjávar og alvarleika þess.

„Ef maður les þetta er eins og hann taki þessu mun alvarlegar en hann gerir hér heima. Þetta er ákveðið heilkenni, að tala miklu meira um þessi mál í útlöndum en koma svo heim og vilja ekki kannast við neitt. Það er engin spurning að Ísland er að taka þessu alvarlega, það þarf bara að segja það hérna heima.“

Að mati Árna fór fundurinn í París betur en á horfðist. Samt þarf að gera meira. Evrópusambandið, Ísland og Noregur lofuðu 40% samdrætti en þarf að fara niður í 62%. Þá lofuðu Bandaríkin að minnka losun um 26% en þurfa í raun og veru að minka hana um 60% sagði Árni.  

Brennsla olíu og kola ætti að heyra sögunni til

Parísarsamkomulagið þýðir að brennsla olíu og kola heyrir sögunni til að mati Árna. „Það var samþykkt að draga stórfellt úr losun á gróðurhúsalofttegundum þannig að hækkun hitastigs haldist vel innan við tvær gráður og helst innan við 1,5 miðað við fyrir tíma iðnbyltingar. Í ljósi þessa samnings gefur auga leið að leit að nýjum olíu- eða gaslindum rúmast ekki innan þessa skuldbindinga sem ríki heims hafa undirgengist,“ sagði Árni.

Samningurinn verður undirritaður í New York 22. apríl næstkomandi. „Þjóðarleiðtogar sem undirrita hann staðfesta jafnframt að olíuleit er andstæð markmiðum samkomulagsins,“ sagði Árni og bætti við að það væri jafnframt siðferðislega rangt að reyna að hagnast á iðnaði „sem veldur lífríki jarðar svo miklum skaða og ógnar öryggi alls mannkyns.“

Samningurinn dugir ekki til

Við pallborðsumræður tók Nína M. Saviolidi, pistlahöfundur á Gruggi, vefriti um umhverfismál í sama streng og sagði það fráleitt að halda olíuleit áfram.

Nina sagðist vera mjög ánægð með að einhver samningur náðist yfir höfuð. „Þetta hefði getað farið mikið verr, það er rosalega jákvætt að það tókst að semja og fór alveg fram úr mínum vonum hvað kom út úr þessu.“ Sagði hún jafnframt frábært að sjá hvernig umræðan um loftlagsbreytingar hefur breyst. „Við skynjum áhugann fyrir þessu núna sem hefur ekki verið undanfarin ár.“

Nína bætti þó við að samningurinn sem var samþykktur í desember dugi ekki til. „Við erum alveg pottþétt að fara yfir tvær gráður ef að ríkin standi við sínar skuldbindingar og örugglega upp í 3, 3,5 að okkar mati. Nú þurfum við að byrja langa og harða baráttu til að hvetja ríkisstjórnina til að standa við orð sín og gera betur. Nú hefst vinnan fyrir alvöru, það þarf að ræða lausnir.“ Sagði hún jafnframt að það væri engin ein töfralausn en sagði það leiðinlegt að stundum væru lausnir settar saman í umræðu og ein lausn látin útiloka hinar.

Nefndi hún til dæmis þær lausnir að endurheimta votlendi eða draga úr umferð losun. „En við þurfum að gera bæði og meira það. Það þarf ekki að setja lausnina hverja á móti annarri. Fyrir utan það fáum við góðan ávinning frá þessum lausnum. Það er gott að endurheimta votlendið og líka að draga úr losun frá umferð.“

Sagði Nína loftlagsbreytingar mjög alvarlegt mál og að staðan væri slæm. „En lausnirnar eru jákvæðar og góðar fyrir okkur.“ Var hún sammála Árna þegar það kemur að olíu- og gasvinnslu. Sagði hún það útilokað að fara út í þessháttar vinnslu eftir þennan samning. „Að okkar mati er það fráleitt að vera að gera það núna.“

Fyrri ákvarðanir höfðu áhrif úti í París

Næst í pontu var Hrönn Hrafnsdóttir hjá umhverfis- og samgöngusviði Reykjavíkurborgar. Að mati Hrannar hafði það mikil áhrif á fundinn í París að búið hafi verið að hvetja svokallaða „non-state actors“ til þess að setja sér markmið þegar það kemur að loftlagsmálum. „Non-state actors“ eru aðrir en ríkið, þá t.d. fyrirtæki, félagasamtök, sveitafélög og borgir sem setja fram sín markmið.

Þá sagði Hrönn frá ákvörðun borgarstjóra um að sækjast eftir loftlagsyfirlýsingum frá fyrirtækjum en úti í París afhenti Dagur B. Eggertsson borgarstjóri fulltrúa Sameinuðu þjóðanna yfirlýsingu sem var undirrituð af fulltrúum 104 fyrirtækja. Í yfirlýsingunni kem­ur fram að fyr­ir­tæk­in skuld­bindi sig til að draga úr los­un gróður­húsaloft­teg­unda, minnka úr­gang og mæla ár­ang­ur til reglu­legr­ar birt­ing­ar. „Við vorum að íhuga hversu margir yrðu tilbúnir til að skuldbinda sig. Það þótti bjartsýni að búast við svona fimmtán en við fengum 104 fyrirtæki.“

Nefndi Hrönn einnig að það hafi verið jákvætt að allir oddvitar flokkanna í borginni hafi farið til Parísar og séð gerjunina sem átti sér stað, sóttu hliðarfundi og tóku markvisst þátt í umræðunni. Er nú búið að setja saman pólitískan stýrihóp hjá borginni sem á að endurskoða stefnu borgarinnar í loftlagsmálum.

Hrönn sagði það augljóst að það þurfi að draga úr losun. „Við þurfum að spá hvað hvert og eitt okkar getur gert,“ sagði Hrönn og nefndi markmið Íslands um að draga úr losun um 40%. Nefndi hún sem dæmi að ef maður er vanur að keyra í vinnuna á hverjum degi, fimm daga vikunnar, væri hægt að sleppa því tvo daga í viku og draga þá úr þinni losun um 40%. „Hver og einn þarf að finna þetta hjá sjálfum sér, ef þú átt fyrirtæki, ert í einkarekstri eða skóla, hvernig getur þú haft áhrif á þig og þinn vinnustað?“

Á eftir að setja „öll kjöt á beinin“

Snorri Baldursson, formaður Landverndar, sagðist í dag fagna þeim góða árangri sem náðist í París og þakkaði Huga fyrir starf sitt. Benti hann á að um væri að ræða risaþróun sem ekki yrði unnin á hverjum degi. Sagði hann að það ætti eftir að „setja öll kjöt á beinin.

„Ísland er í kjöraðstæðum,“ sagði Snorri. „Við megum ekki nýta hana í það að bæta í stóriðju sem virðist vera stefna hjá núverandi ríkisstjórn. Við þurfum frekar að kolefnisjafna Ísland.“ Hann var sammála fyrri ræðumönnum, Árna og Nínu, um að ekki væri hægt að halda áfram að leita eftir olíu miðað við niðurstöðu fundarins. Sagði hann jafnframt að þörf væri á metnaðarfyllra markmiði. Vitnaði hann í sóknaráætlun ríkisstjórnarinnar þar sem m.a. er stefnt að því að árið 2020 verði 10% orkugjafa endurnýjanlegri. Sagði hann að markmiðið ætti að vera 50% árið 2030. „Við þurfum miklu miklu meira, og metnaðarfyllra markmið,“ sagði Snorri.

Hugi Ólafsson skrifstofustjóri hjá umhverfisráðuneytinu
Hugi Ólafsson skrifstofustjóri hjá umhverfisráðuneytinu mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands
Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands
Aðalritari Sameinuðu þjóðanna, Ban Ki Moon, Utanríkisráðherra Frakka, Laurent Fabius …
Aðalritari Sameinuðu þjóðanna, Ban Ki Moon, Utanríkisráðherra Frakka, Laurent Fabius og forseti Frakklands, Francois Hollande, fagna samkomulaginu þegar að það náðist í París. AFP
Frá undirritun yfirlýsingar 104 íslenskra fyrirtækja þar sem þau skuldbundi …
Frá undirritun yfirlýsingar 104 íslenskra fyrirtækja þar sem þau skuldbundi sig til að draga úr losun. mbl.is/Styrmir Kári
Mótmælendur við Eiffel turninn í desember.
Mótmælendur við Eiffel turninn í desember. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina