Kæra útboðið á viðgerð varðskipsins Þórs

Varðskipið Þór.
Varðskipið Þór. mbl.is/Ómar Óskarsson

Íslenska skipamiðlunarfyrirtækið BP shipping agency hefur kært útboð Ríkiskaupa um viðgerð á varðskipinu Þór til Kærunefndar útboðsmála eftir að gengið var til samninga við fyrirtækið Alkor um lagfæringar á skipinu. Þetta staðfestir Björgvin Gunnar Björgvinsson hjá BP shipping agency í samtali við mbl.is. Fyrirtækið telur að ekki hafi verið fylgt ákvæðum í útboðsgögnum um vottun skipasmíðastöðvarinnar. Ríkiskaup hafa aftur á móti svarað fyrir valið og benda á að lægsta tilboði hafi verið tekið og að undirverktaki skipasmíðastöðvarinnar hafi fullgild vottorð.

Í fyrra ákváðu Ríkiskaup að bjóða út viðgerðina á Þór, en varðskipið laskaðist eftir að rússneskt skólaskip sigldi á það í júní á síðasta ári. Björgvin segir að BP shipping hafi ákveðið að taka þátt í útboðinu og gert það fyrir hönd skipasmíðastöðvar í Póllandi.

Frétt mbl.is: Stór göt á varðskipinu Þór

Ekki horft til aukakostnaðar við vinnu sérfræðinga

Meðal annars hafi þeir fengið að skoða skemmdirnar og skipið í nóvember og hafi þeir þátttakenda í útboðinu mætt þangað. Í Þór eru vélar frá Rolls Royce fyrirtækinu og hefur skipasmíðastöðin sem BP shipping vinnur með leyfi til að gera við slíkar vélar. Að öðrum kosti þyrfti sérfræðinga frá Rolls Royce, en í útboðsgögnum kom fram að Landhelgisgæslan myndi útvega þá vinnu ef bjóðendur í verkið hefðu ekki þau réttindi.

Björgvin segir að þeir hafi fengið þau svör að möguleg viðgerðarvinna við vélina ætti að vera inn í útboðsverðinu en að nú sé það metið sem svo að verð þeirra sé mun hærra en þess sem hreppti verkið og hafði þá viðgerðarvinnu ekki í útboðsverðinu.

Segja vottun skipasmíðastöðvarinnar vantar

Tilboð í verkið voru opnuð í byrjun janúar, en alls buðu fimm skipasmíðastöðvar í viðgerðina. Lægsta boðið hljóðaði upp á rúmlega 88 milljónir, en tilboð BP shipping agency og samstarfsaðila þeirra var upp á rúmlega 113 milljónir.Munar því tæplega 25 milljónum á milli tilboðanna, en þar af er viðgerðin á vélunum metin á rúmlega 23 milljónir. Björgvin segir að til viðbótar við þetta muni það kosta Landhelgisgæsluna meiri pening en þetta að fá sérfræðinga frá Rolls Royce til viðgerðanna meðan slíkir menn séu hluti af viðgerðateyminu í Póllandi. Því sé verið að bera saman mismunandi hluti í niðurstöðu Ríkiskaupa.

Skemdir á Þór vega áregsrar skips Rússa. Áreksturinn olli töluverðum …
Skemdir á Þór vega áregsrar skips Rússa. Áreksturinn olli töluverðum skemmdum. Árni Sæberg

Hann gagnrýnir einnig að semja eigi við fyrirtæki sem hafi ekki ISO 9001 vottun, en í útboðsgögnum kom fram að bjóðandi í verkið skildi hafa slíka vottun. Segir Björgvin að greinilegt sé af útboðslýsingunni að dæma að Ríkiskaup fari ekki eftir eigin reglum, en hann segir engar staðfestingar hafa borist um að Alkor hafi ISO 9001 vottun. Segir Björgvin að ef legið hefði fyrir að ekki þyrfti ISO 9001 vottun hefðu væntanlega fleiri smærri skipasmíðastöðvar hafa boðið í verkið og verðmiðinn verið lægri.

Farið að lögum um opinber innkaup

Dagmar Sigurðardóttir, yfirlögfræðingur Ríkiskaupa, segir í samtali við mbl.is að rétt sé að í útboðslýsingu hafi verið óskað eftir ISO 9001 vottun, en að í lögum um opinber innkaup sé þó heimilað að fyrirtæki byggi á tæknilegri getu annars aðila. Segir hún að það ákvæði eigi við í þessu atviki og bætir við að í útboðslýsingunni komi sérstaklega fram að ef skörun sé á texta útboðslýsingarinnar og lögum um opinber innkaup þá gildi lögin.

Segir Dagmar jafnframt að umrætt ákvæði sé ekki bara í íslenskum lögum heldur byggist á evrópskum tilskipunum og sé ætlað að auðvelda litlum og meðalstórum fyrirtækjum að taka þátt í opinberum útboðum. Segir hún að ef Ríkiskaup hefðu ekki tekið lægsta boðinu væri það andstætt lögum og gætu þau þurft að greiða skaðabætur. Segist hún fagna því ef málið verði kært og efnisleg niðurstaða fáist í það.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert