„Samfylkingin lifir ekki til haustsins“

Ólína Þorvarðardóttir alþingismaður.
Ólína Þorvarðardóttir alþingismaður.

Þingmaður Samfylkingarinnar segir að flokkurinn lifi ekki til haustsins verði ekki breyting á fylgi hans en tilefnið er ný skoðanakönnun Gallup sem greint var frá í gær. Þar mældist Samfylkingin með 9,2% fylgi og næst minnsti flokkur landsins sem á sæti á Alþingi. Aðeins Björt framtíð mælist minni en fylgi flokksins er 3,6% samkvæmt sömu könnun.

Samfylkingin hefur ekki áður mælst með jafn lítið fylgi en lægst fór það áður í 9,3% í ágúst á síðasta ári. Þetta er langt fyrir neðan meðalfylgi Samfylkingarinnar í kosningum til þessa en það er 25,4% og er inni í þeirri tölu fylgi flokksins í síðustu þingkosningum þegar hann tapaði miklu fylgi og fékk 12,9%. Kosningafylgi flokksins áður var á bilinu 26,8-31%.

Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, vill að landsfundi flokksins, og þar með formannskjöri, verði flýtt og hann haldinn í maí í stað nóvember eins og til standi. Landsfundur Samfylkingarinnar fór síðast fram í mars á síðasta ári en þar var Árni Páll Árnason, formaður flokksins, endurkjörinn með aðeins eins atkvæðis meirihluta.

„Eftir Gallupkönnunina í gær hlýtur öllum að vera ljóst að við svo búið má ekki standa lengur. Flokkurinn mun ekki lifa til haustsins með þessu áframhaldi. Ég legg til að landsfundi og þar með formannskjöri verði flýtt fram í maí. Staðan er óþolandi fyrir alla sem málið varðar og nú er mál að linni,“ segir Ólína í færslu á Facebook-síðu Samfylkingarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert