Lokanir á vegum líklegar

Verður þetta staðan á morgun?
Verður þetta staðan á morgun? mbl.is/Styrmir Kári

Búast má við að á morgun, fimmtudag þurfi að grípa til lokana á vegum á Suðvesturlandi vegna óveðurs. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni þar sem sagðar eru líkur á því að um og uppúr hádegi verði vegum lokað yfir Hellisheiði, um Þrengsli og á Mosfellsheiði.

Ólíklegt er að unnt verði að beina umferð um Suðurstrandarveg á meðan lokanir vara. Þá er líklegt að einnig þurfi að loka Vesturlandsvegi um Kjalarnes.

„Lægð sem dýpkar ört suður af landinu mun valda ofanhríð og stormi eftir hádegi á morgun.  Fyrst á á  Hellisheiði frá því um og upp úr hádegi og um miðjan dag almennt um sunnanvert landið.  Austan 18-25 m/s og reiknað með snörpum byljum s.s. undir Eyjafjöllum, í Öræfum og á Kjalarnesi,“ segir í athugasemdum veðurfræðings í tilkynningunni. „Hætt er við að mjög blint verði.  Síðdegis blotar á láglendi og þá tekur við flughálka á vegum. Skil lægðarinnar er síðan spáð norður yfir landið annað kvöld.“

Færð og aðstæður

Éljagangur er víða um suðvestanvert landið. Hálkublettir eru á Reykjanesbraut og Suðurnesjum, og eins á Höfuðborgarsvæðinu. Það er hálka bæði á Hellisheiði og í Þrengslum, og skafrenningur. Hálkublettir á eru Hringveginum á Suðurlandi en á öðrum vegum á Suðurlandi er víða hálka.

Hálka er allvíða á Vesturlandi, ekki síst á Snæfellsnesi og á fjallvegum. Eins er hálka á Vestfjörðum, víðast hvar, og sums staðar skafrenningur á heiðum. Þæfingur er á Kleifaheiði og Klettshálsi.

Hálka er á flestum vegum á Norðurlandi og sums staðar éljagangur.

Hálka er á flestum aðalleiðum á Austurlandi en annars víða snjóþekja, einkum á sveitavegum.

Hálka og hálkublettir eru með suðausturströndinni en snjóþekja vestast og víða skafrenningur en stórhríð er á Reynisfjalli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert