Ölvaðir og dópaðir í umferðinni

Ljósmynd/Kristinn Freyr Jörundsson

Ölvaður ökumaður reyndi að stinga af frá umferðaróhappi í vesturbænum í gærkvöldi en var handtekinn af lögreglu. Annar ökumaður sem lögregla stöðvaði var undir áhrifum fíkniefna og með stolin skráningarnúmer á bifreiðinni. Hvorugur þeirra er með bílpróf.

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu var tilkynnt um umferðaróhapp í vesturbænum upp úr klukkan 11 í gærkvöldi og var það annar ökumaðurinn sem óskaði eftir aðstoð lögreglu.

Þegar lögregla kom á vettvang var annar ökumaðurinn sem hlut átti að málinu að reyna að komast á brott. Hann var handtekinn grunaður um ölvun við akstur. Í ljós kom að ökumaður var sviptur ökuréttindum. Að lokinni blóðtöku var ökumaður vistaður í fangageymslu og verður hann yfirheyrður síðar í dag vegna málsins. 

Um hálf þrjú barst lögreglunni tilkynning um hugsanlegan fíkniefnaakstur á Miklubraut í austur. Akstur bifreiðarinnar var stöðvaður á Gagnvegi við N1. Í ljós kom að ökumaður var án ökuréttinda og hafði aldrei öðlast þau réttindi. Hann var undir áhrifum fíkniefna og skráningarmerki sem á bifreiðinni var reyndist stolið og tilheyrði hjólhýsi en ökumaður hafði stolið því þaðan. Bifreiðin reyndist einnig vera ótryggð.  Að lokinni töku blóðsýnis var ökumaður laus.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert