„Ætlar ráðherra með reikninginn?“

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG.
Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG. mbl.is/Styrmir Kári

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna, spurði Sigurð Inga Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að því í dag hvort ákvörðunar væri að vænta varðandi stuðning við smærri byggðarlögin í landinu vegna innflutningsbanns Rússa á íslenskar sjávarafurðir.

Nefndi hann bæi á borð við Þórshöfn, Vopnafjörð og Djúpavog í því samhengi. „Þetta er sérstaklega erfitt fyrir litlu byggðarlögin þar sem er einhæft atvinnulíf,“ sagði Steingrímur og bætti við að í skýrslu Byggðastofnunar kæmi fram að tekjutapið verði umtalsvert bæði hjá landverkafólki, sjómönnum og sveitarfélögum vegna bannsins.

Sveitarfélög beri ekki allan herkostnaðinn

„Mitt mat er að það geti ekki gengið að landverkafólk og veikburða og fámenn sveitarfélög beri allan herkostnað af utanríkisstefnu landsins. Það er ekki hægt að ætlast til þess að menn sendi reikninginn norður á Vopnafjörð. Er ekki senn að vænta ákvörðunar í mótvægisaðgerðum?,“ spurði hann Sigurð Inga á Alþingi.

Sigurður Ingi Jóhannsson, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra. mbl.is/Sigurður Bogi

Ráðherra sagði það rétt að landverkafólk verði fyrir umtalsverðu tjóni vegna banns Rússa og að verið sé að skoða með hvaða hætti eigi að koma til móts við fólkið. Hann sagði þó að loðnubrestur væri einnig að koma illa við þessi smærri bæjarfélög.  „Það er ekki bara Rússamálið sem verður til þess að loðnan er minni,“ sagði hann og bætti við að ríkisstjórnin réði ekki yfir náttúruöflunum.

Fundur á Vopnafirði á þriðjudag

Að sögn Sigurðar Inga er fundur fyrirhugaður á Vopnafirði næstkomandi þriðjudag þar sem heimamenn verða upplýstir um hvaða hlutir eru í vinnslu. Byggðarstofnun fer með það verkefni fyrir hönd ríkisstjórnarinnar.  „Við erum að reyna að finna lausnir til að geta komið til móts við byggðarlögin með einhverjum hætti.“

Steingrímur sagði mikilvægt að málið verði leitt til lykta og að mótvægisaðgerðir séu bráðnauðsynlegar. „Landverkafólk og sveitarfélög þurfa stuðning. Ætlar ráðherra sjálfur með reikninginn norður á Þórshöfn eða austur á Djúpavog?"

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert