Óformleg viðskiptavakt ólögleg

Sigurjón Árnason, fyrrum bankastjóri og Ívar Guðjóns­son, fyrr­ver­andi for­stöðumaður eig­in …
Sigurjón Árnason, fyrrum bankastjóri og Ívar Guðjóns­son, fyrr­ver­andi for­stöðumaður eig­in fjár­fest­inga bank­ans. mbl.is/Árni Sæberg

Hæstiréttur segir óformlega viðskiptavakt, sem var stunduð af viðskiptabönkunum fyrir hrun, vera ólöglega. Þetta kemur fram í  dómi Hæstaréttar í markaðsmisnotkunarmáli Landsbankans sem kveðinn var upp í dag. Þessi háttur á viðskiptavakt hefur mikið komið við sögu í markaðsmisnotkunarmálum Landsbankans og Kaupþings sem rekin hafa verið fyrir dómstólum undanfarin ár. Í dómnum núna segir Hæstiréttur skýrt að viðskiptin sem Landsbankinn stundaði hafi verið ólögleg.

Í dómnum er rekin heimild til að hafa viðskiptavaka til að greiða fyrir að markaðsverð skapist á markaði. „Skal viðskiptavaki tilkynna um samninginn og sé samið um viðskipti fyrir reikning útgefanda skal tryggt að honum sé ekki unnt að hafa áhrif á ákvarðanir um viðskipti á grundvelli samningsins,“ segir Hæstiréttur og bætir við: „. Með gagnályktun frá þessari lagagrein er fjármálafyrirtæki, sem annast verðbréfaviðskipti, óheimilt að takast á hendur viðskiptavakt með eigin hluti.“

Farið er yfir að ákærðu hafi þótt slík viðskipti eðlileg, enda þekkt á markaðinum. Í dómnum er ekki gefið mikið fyrir þessa skýringu og ítrekað að slík viðskipti séu ólögleg: „Eins og áður greinir var bankanum sem fjármálafyrirtæki, er hafði með höndum verðbréfaviðskipti, óheimilt samkvæmt lögum nr. 108/2007 að stunda viðskipti með eigin hluti á skipulegum verðbréfamarkaði eins og í kauphöllinni í þessum tilgangi nema í undantekningartilvikum sem ekki eiga við hér. Umrædd viðskipti voru því ólögmæt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert