Vaka heldur velli

mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Vaka, félag lýðræðissinnaðra stúdenta fékk 17 fulltrúa kjörna og Röskva, samtök félagshyggjufólks við Háskóla Íslands, 10 í kosningum um 27 stúdentaráðsfulltrúa.

Kosningar hafa staðið yfir síðastliðna tvo daga. Kosnir eru fulltrúar sem tilheyra fimm sviðum; félagsvísinda-, hugvísinda,- menntavísinda-, heilbrigðisvísinda- og verkfræði og náttúruvísindasviði. Á hverju sviði eru fimm stúdentaráðsliðar, fyrir utan félagsvísindasviðið, sem hefur sjö stúdentaráðsfulltrúa en það er sömuleiðis fjölmennasta sviðið. Saman mynda sviðin fimm Stúdentaráð Háskóla Íslands.

Á félagsvísindasviði var kjörsókn 40,19 prósent og fékk Vaka fimm menn kjörna og Röskva tvo.

Á menntavísindasviði var kjörsókn 33,87 prósent og fékk Vaka fjóra menn kjörna og Röskva einn.

Á heilbrigðisvísindasviði var kjörsókn 52,90 prósent og fékk Vaka þrjá menn kjörna og Röskva tvo.

Á verkfræði- og náttúruvísindasviði var kjörsókn 52,31 prósent fékk Vaka þrjá menn kjörna og Röskva tvo og á hugvísindasviði var kjörsókn 34,15 prósent og fékk Vaka tvo menn kjörna en Röskva.

Auk frambjóðenda Röskvu og Vöku var Giedre Razgute, nemi í íslensku sem öðru máli, í einstaklingsframboði á Hugvísindasviði. Giedre hafnaði í sjötta sæti og vantaði aðeins tíu atkvæði upp á að ná kjöri. 

5832 greiddu atkvæði í kosningunum þetta árið en 14.031 voru á kjörskrá. Kjörsókn var því 41,57%, sem er mjög sambærilegt kosningum síðastliðinna ára, 43,17% í fyrra og 40,67% fyrir tveimur árum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert