Áhrif Landsbankadóms mikil á komandi mál

Ólafur Þór Hauksson, héraðssaksóknari.
Ólafur Þór Hauksson, héraðssaksóknari. mbl.is/Ómar Óskarsson

Dómurinn í markaðsmisnotkunarmáli Landsbankans setur mjög afgerandi fordæmi og væntanlega verður litið til þess við afgreiðslu mála sem eiga eftir að koma til kasta Hæstaréttar og sem gætu komið fyrir héraðsdóm seinna. Þetta segir Ólafur Hauksson héraðssaksóknari í samtali við mbl.is. Á fimmtudaginn var kveðinn upp dómur í málinu og voru fjórir fyrrverandi starfsmenn bankans dæmdir sekir fyrir markaðsmisnotkun, þar af fyrrverandi bankastjóri.

Dæmt fyrir kaupahegðun yfir langt tímabil

Ólafur segir að þótt áður hafi verið dæmt í markaðsmisnotkunarmálum hafi það verið tengt við einstök viðskipti. „Þarna er dæmt fyrir kaupahegðun eða viðskipti sem spanna langt tímabil,“ segir hann og bætir við að brotin hafi þannig verið dagleg.

Segir hann að í dómnum sé málið metið heildstætt og niðurstaðan sú að sakfellt sé fyrir allt tímabilið, en í héraði hafði bara verið sakfellt fyrir síðustu fimm dagana þegar viðskiptin þóttu óvenjumikil. „Að því leyti er þetta mjög afgerandi fordæmi,“ segir Ólafur.

Forskrift og form fyrir framtíðarmál

Hann segir nú meginatriði fyrir ákæruvaldið að fara yfir öll þau atriði sem dómurinn komi inn á, enda hafi ekki reynt á svona mál áður heildstætt. Segir hann Hæstarétt fallast á málatilbúnað og þá umgjörð sem ákæruvaldið setti fram í málinu. Þannig gefi þetta vísbendingu um að hægt sé að nota málið sem forskrift og form fyrir önnur mál í framtíðinni.

Meðal þess sem Ólafur nefnir að komi fram í dómnum er að óformleg viðskiptavakt sé ólögleg, en mikið púður fór í það atriði bæði í þessu máli og markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings sem var rekið í héraðsdómi síðasta vor. Þá segir Ólafur dóminn einnig vera skýran varðandi að pöruð viðskipti í Kauphöllinni séu sérstaklega verðmyndandi umfram utanþingsviðskipti, sérstaklega þegar bankinn lánaði sjálfur fyrir þeim. Þannig sé meira hægt að stilla verðmyndun utanþingsviðskipta af.

Tímabilið mun lengra en ákært var fyrir

Ólafur nefnir einnig að Hæstiréttur segi augljósa fylgni vera milli þróun verðs hlutabréfa Landsbankans og hvernig deild eigin fjárfestinga hagaði viðskiptum sínum. Segir hann að þar virðist Hæstiréttur vera skeptískur á tímabilið fyrir framan ákærutímabilið. Það geti bent til þess að markaðsmisnotkunin hafi staðið í mun lengri tíma en ákært var fyrir, þó að í dómnum komi fram að umfang viðskiptanna hafi verið mun meira þegar kom fram á ákærutímabilið.

Fordæmisgefandi fyrir Kaupþingsmál

Eins og fyrr segir var markaðsmisnotkunarmál Kaupþings tekið fyrir í héraðsdómi á síðasta ári. Ólafur segir að væntanlega verði töluvert horft til niðurstöðu Landsbankamálsins þegar komi að Kaupþingsmálinu.

Saksóknari rannsakaði lengi markaðsmisnotkunarmál Glitnis, en engin ákæra hefur verið gefin út í því máli. Aðspurður hvort niðurstaða þessa máls hafi áhrif á það segir Ólafur að dómurinn muni auðvelda ákvarðanatöku í ákæruferli þess máls.

Hæstiréttur dró línur með athugasemdum

Í dómnum eru þó einnig gerðar athugasemdir við starfshætti saksóknara í málinu. Meðal annars er sagt að hleranir síma ákærðu beint eftir að þeir mættu í skýrslutöku hjá saksóknara sé brot á réttindum þeirra. Aðspurður um þetta atriði og áhrif þess á framtíðar rannsóknir mála og framsetningu fyrir dómi segir Ólafur að þarna hafi verið dregin ákveðin lína. Segir hann að embættið muni núna skoða önnur máli í ljósi þessara athugasemda, en þá muni þetta einnig ná til allra rannsókna sem lögregluembætti stundi.

Segir Ólafur að hlustanir sem þessar hafi verið stundaðar í fleiri málum án athugasemda. Nefnir hann sérstaklega fíkniefnamál. „Þarna kveður við þennan nýja tón og við munum taka mark á því,“ segir hann. Ólafur telur þetta þó ekki breyta þeim málum sem eru nú í ákærumeðferð eða á milli dómstiga. Það verði þó farið vandlega yfir hvert og eitt mál í kjölfar dómsins.

mbl.is