Lífsreyndar kisur vantar heimili

Snúður leitar að nýju heimili ásamt systur sinni, Snældu.
Snúður leitar að nýju heimili ásamt systur sinni, Snældu. Dýrahjálp Íslands

Dýrahjálp Íslands mun halda sérstakan ættleiðingardag á sunnudag, Valentínusardag, í sal gæludýr.is í Korputorgi kl. 12-15. Þar verða kettir til sýnis sem leita nú að varanlegu heimili eftir að hafa verið bjargað úr skemmu þar sem þeim var haldið við skelfilegar aðstæður.

„Við verðum þarna með dýrin sem eru að koma og sýna sig. Fólk getur mætt og skoðað þau en það fer ekki með dýrin beint af atburðinum,“ segir Svala Jónsdóttir í stjórn ættleiðingardaga Dýrahjálpar. „Ef fólk ætlar að ættleiða þá verður að senda inn umsókn á dýrahjálp.is.“ Ekki er skilyrði fyrir ættleiðingu að mæta á sunnudag, tekið verður við umsóknum á netinu. Dýrahjálp tekur ekki gjald fyrir ættleiðingar.

„Fólk getur líka sent inn umsókn áður en það kemur á sýninguna en það missir þá af því að hitta dýrin. Þetta er bara tækifæri fyrir fólk að koma og sjá, þar sem Dýrahjálp hefur engan fastan samastað,“ sagði Svala.

Kettirnir voru illa haldnir af sýkingum eins og Moli litli …
Kettirnir voru illa haldnir af sýkingum eins og Moli litli á þessari mynd þegar þeim var bjargað. Hann, ásamt fleirum, hefur nú náð sér á ný og verður til sýnis á sunnudag. Dýrahjálp Íslands

Dagur af þessu tagi hefur ekki verið haldinn síðan 2014. „Það hefur gengið alveg gríðarlega vel að ættleiða dýr út. Við gerum þetta þegar það er komin teppa í fósturheimilakerfið hjá okkur,“ segir Svala.

Nýlega komust þrjátíu kettir upp á náð Dýrahjálpar þegar skemma var rýmd þar sem voru haldnir um fimmtíu kettir.

„MAST fór í að rýma þessa skemmu og það fundust um fimmtíu kettir á lífi í henni,“ segir Svala. Af þeim köttum tók Dýrahjálp að sér þrjátíu en aðrir dreifðust á önnur samtök eins og Kattholt og Kattavinafélag Akureyrar. „Ein læðan var kettlingafull svo þar bættust við fimm þannig að við enduðum uppi með 34 ketti á fósturheimilum.“

Eineygða kisan Branda hefur náð sér eftir slæma augnsýkingu og …
Eineygða kisan Branda hefur náð sér eftir slæma augnsýkingu og vantar nýtt heimili. Dýrahjálp Íslands

Svala segir kettina hafa verið afar þjáða af sýkingum þar sem þeir voru haldnir í mjög skítugu og lokuðu umhverfi en allir nema einn náðu sér aftur og eru allir kettirnir sem eru tilbúnir til ættleiðingar komnir til góðrar heilsu.

„Þetta eru ungir kettir; yngsti kötturinn sem kemur á sýningardaginn verður fimm mánaða og við höldum að elsti kötturinn sé um fjögurra ára. Þeir voru með lífshættulegar sýkingar. Margir með gríðarlegar augnsýkingar. Ein af þeim sem kemur á sýningardaginn missti augað vegna sýkingar og yngsti kötturinn var með alvarlega sýkingu og það var tvísýnt yfir jólin hvort það þyrfti að fjarlægja annað augað eða ekki en hann var svo duglegur að taka sýklalyfin sín að það þurfti ekki.“

Talsverða vanrækslu þarf til þess að kettir verði svo veikir. „Svona sýkingar koma ekkert upp nema það sé gríðarlega skítugt umhverfi hjá þeim. Inni í þessari skemmu voru þeir bara sofandi og liggjandi í eigin skít og höfðu ekkert annað í kringum sig.“

Talsverða umönnun þurfti eftir að þeim var komið þaðan út. „Við komuna á fósturheimili þurfti að athuga hvort þeir hefðu fengið sár. Í öllum sárum og opum á líkamanum eins og nefi og augum voru grasserandi þar sýkingar. Það dó einn úr sýkingum en allir hinir hafa verið að koma til mjög vel. Þeir hafa verið í bólusetningum og eftirliti hjá dýralækni. Allir kettir sem við auglýsum eru orðnir heilsuhraustir, bólusettir og geldir,“ sagði Sara.

Hér má sjá fleiri myndir af þeim kisum sem boðað hafa komu sína á sunnudag.

Ættleiðingarvefur Dýrahjálpar.

Karma er lítil, svört læða sem bíður eftir nýju heimili.
Karma er lítil, svört læða sem bíður eftir nýju heimili. Dýrahjálp Íslands
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert