Beiðnum Hreiðars og Sigurðar hafnað

Hreiðar Már Sigurðsson og Sigurður Einarsson.
Hreiðar Már Sigurðsson og Sigurður Einarsson. Mynd/mbl.is

Endurupptökunefnd hefur hafnað beiðnum Hreiðars Más Sigurðssonar og Sigurðar Einarssonar um að Al Thani-málið verði endurupptekið í Hæstarétti. Frá þessu greinir RÚV en mbl.is sagði frá því fyrr í dag að beiðni Ólafs Ólafssonar, sama efnis, hefði verið hafnað.

Frétt mbl.is: Beiðni Ólafs hafnað

Endurupptökubeðini Ólafs byggði á því að Hæstiréttur hefði lagt rangt mat á símtal tveggja manna þar sem vísað var til aðila sem nefndur var Óli en Hæstiréttur taldi að þar væri um að ræða Ólaf Ólafsson.

Hreiðar taldi sömuleiðis að Hæstiréttur hefði gert augljós mistök í máli Ólafs, sem hefði haft veruleg áhrif á refsingu sína. Hún hefði orðið þyngri en ella. Þá taldi hann að Árni Kolbeinsson hæstaréttardómari hefði verið vanhæfur til að dæma í málinu.

Samkvæmt RÚV komst Endurupptökunefnd að þeirri niðurstöðu að hafið væri yfir allan skynsamlegan vafa að aðilar símtalsins, Bjarnfreður Ólafsson lögmaður og Eggert Hilmarsson yfirlögfræðingur Kaupþings í Lúxemborg, hefðu verið að tala um Ólaf Ólafsson.

Ekki hefur verið úrskurðað um beiðni Magnúsar Guðmundssonar, fyrrverandi forstjóra Kaupþings í Lúxemborg.

mbl.is
Loka