Makaskipti aldrei raunhæfur kostur

Hafnartorg
Hafnartorg PK arki­tekt­ar

Landstólpi-þróunarfélag og forsætisráðuneytið hafa framlengt tímaramma um viðræður vegna uppbyggingar á Hafnartorgi um eina viku, en samkomulag um slíkt var gert í síðasta mánuði.

Forsætisráðuneytið ætlaði að koma með hugmyndir um nýtingu á því húsnæði sem byggja á við Hafnartorg og Landstólpar eru í forsvari fyrir fyrir 12. febrúar. Forsætisráðherra hefur gert athugasemdir við útlit húsanna og er til skoðunar að breyta því. Þetta staðfestir Gísli Steinar Gíslason, framkvæmdastjóri Landstólpa, í samtali við mbl.is.

Gísli segir að aðalástæða þess að fresturinn hafi verið lengdur sé að menn hafi séð fram á að tíminn væri of knappur. Upphaflega var horft til þess að komin væri niðurstaða í málið 12. febrúar og ef svo væri ekki væru Landstólpar ekki bundnir af viðræðum við ráðuneytið. Nú hefur fresturinn verið framlengdur til 19. febrúar.

Tilbúnir að skoða breytta ásýnd húsanna

Gísli segir að verið sé að reyna að finna lausn á málinu og innan ráðuneytisins sé í gangi þarfagreining. „Við bíðum eftir hugmyndum,“ segir hann og bætir við að það sé alveg inn í myndinni að skoða hugmyndir um breytta ásýnd húsanna eftir þá gagnrýni sem kom fram.

Meðal þess sem forsætisráðherra hafði nefnt var að eiga makaskipti við Landstólpa með lóð sem ríkið á við Skúlagötu. Gísli segir að sú hugmynd hafi aldrei verið raunhæf, enda hafi þegar verið búið að selja fasteignafélaginu Regin allt verslunarhúsnæði sem byggja á á lóðinni. Er um að ræða einn þriðja af heildarbyggingarmagni reitarins, eða um þrjú þúsund fermetra.

Hann segir Landstólpa hafa fundað nokkrum sinnum með ráðuneytinu og enn sé til skoðunar að ráðuneytið færi starfsemi sína í húsnæðið, en gert er ráð fyrir um sex þúsund fermetrum af skrifstofurými. Gísli segir þó margt annað í stöðunni og þannig hafi fleiri leigjendur sýnt áhuga á að kaupa skrifstofurýmið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert