Margþættur vandi Samfylkingarinnar

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stefanía Óskarsdóttir, lektor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, telur að á næsta landsþingi Samfylkingarinnar verði gerð krafa um að umboð formanns flokksins verið endurnýjað sem og framboðslistar flokksins.  Einnig þurfi Samfylkingin að skerpa á sérstöðu sinni hvað varðar málefni.

„Það er ekki einföld list að velta vandanum yfir á formanninn og segja að allt sé honum að kenna. Ég ætla ekki að taka afstöðu til þess hvort hann eigi að fara en vil benda á að það eru nokkrir þættir sem hanga saman. Bæði það sem gerðist á síðasta kjörtímabili og að Samfylkingin missti frumkvæði sitt yfir til Pírata,“ segir Stefanía, spurð út í stöðu mála hjá flokknum.

Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur segir vanda Samfylkingarinnar margþættan.
Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur segir vanda Samfylkingarinnar margþættan. mbl.is/ Styrmir Kári

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, sagði í viðtali við Morgunútvarp Rásar 2 í dag að hann hefði ekki skýrt umboð flokksmanna til að gegna formannshlutverkinu. Hann bætti við að skemmtilegra væri ef flokksmenn myndu beina kröftum sínum gegn andstæðingum sínum frekar en í innanflokksdeilur.

Frétt mbl.is: Segist ekki hafa skýrt umboð

Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, greindi nýlega frá því að hún vilji að landsfundi flokksins, og þar með formannskjöri, verði flýtt og hann haldinn í maí í stað nóvember eins og til stendur.

Frétt mbl.is: Samfylkingin lifir ekki til haustsins

Frétt mbl.is: Landsfundur ræddur 

Ólína Þorvarðardóttir, alþingismaður, vill að landsfundinum verði flýtt.
Ólína Þorvarðardóttir, alþingismaður, vill að landsfundinum verði flýtt.

Píratar rödd stjórnarandstöðunnar 

Stefanía segir Pírötum hafi tekist að vera rödd stjórnarandstöðunnar og að fólk virðist binda allar sínar vonir við þá. Flokkurinn hefur ítrekað mælst með mesta fylgið á landinu í skoðanakönnunum. Hún bætir við að eftir að ESB-umsóknin var tekin af dagskrá hjá núverandi ríkisstjórn hafi sérstaða Samfylkingarinnar orðið minni.

Helgi Hrafn Gunnarsson og félagar í Pírötum hafa fengið mikið …
Helgi Hrafn Gunnarsson og félagar í Pírötum hafa fengið mikið fylgi í skoðanakönnunum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er viðbúið að í aðdraganda nýrra kosninga komi skjálfti í þingmannaliðið. Í síðustu kosningum var mjög lítil endurnýjun á framboðslistum Samfylkingarinnar. Síðan var kosningatapið til þess að fulltrúum fækkaði og engin ný andlit bættust í raðir Samfylkingarinnar á þingi,“ segir hún.

Formannskjörið veikti flokkinn 

Stefanía efast um að flokkurinn hefði verið betur settur ef Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, sem bauð sig fram gegn Árna Páli á síðasta landsfundi, hefði tekið við formennskunni af honum. Árni Páll vann formannskjörið með eins atkvæðis mun. Hann hafði áður unnið kosningu á meðal almennra félagsmanna og því var framboð Sigríðar óvænt. „Þetta var óheppilegt uppistand á þessum fundi. Þetta gerði ekkert annað en að veikja flokkinn bæði inn á við og út á við.“

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir bauð sig fram gegn Árna Páli Árnasyni.
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir bauð sig fram gegn Árna Páli Árnasyni. mbl.is/Ómar

Grafa ekki undir formanni ríkisstjórnarflokks

Árni Páll hefur bent á að á meðan flokksmenn einblíndu á fylgistap Samfylkingarinnar þá dytti engum þingmanni Framsóknarflokksins í hug að tala um að flokkurinn hefði tapað 55% fylgi frá síðustu kosningum.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. mbl.is/Styrmir Kári

Að mati Stefaníu er það áberandi þegar flokki stjórnarandstöðu gengur illa að háværar kröfur koma upp um að skipta út formanninum. Þessar kröfur heyrast varla ef flokki sem gengur illa í könnunum er í ríkisstjórn. „Stuðningsmenn ríkisstjórnar eru ekki jafnspenntir fyrir því að grafa undir slíkum formanni. Framsókn fékk mjög mikið lausafylgi í síðustu kosningum sem var fljótt að fara af honum aftur. Það fylgi hefur leitað til Pírata og þeirra fylgi er reyndar að koma úr öllum áttum,“ segir hún.

Árni Páll vill ekki gefa upp hvort hann ætlar að bjóða sig aftur fram til formanns Samfylkingarinnar. Að mati Stefanínu virðist hann með þessu vera að kanna bakland sitt hjá flokknum, sérstaklega hjá grasrótinni. Þess vegna vill hann ekkert gefa út um sitt næsta skref fyrr en það liggur ljóst fyrir. 

Þrjú ár eru liðin síðan Árni var kjörinn nýr formaður Samfylkingarinnar eftir að hafa borið sigurorð af Guðbjarti Hannessyni. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert