„Þetta mjakast á hraða snigilsins“

Kort/Google

Bjarni Hilmar Jónsson, faðir Birgittu Gyðu Bjarnadóttur sem er í haldi í Brasilíu ásamt kærasta sínum grunuð um fíkniefnasmygl, segir málið ganga hægt fyrir sig þar sem að nú stendur yfir kjötkveðjuhátíð. „Hátíðin hófst síðasta föstudag og stendur yfir í viku. Á meðan er allt lokað og það gerist ekki nokkur skapaður hlutur. Meira að segja lögfræðingurinn er í fríi.“

Hann býst þó við því að gefin verði út ákæra í málinu á allra næstu dögum þar sem yfirvöld hafi fjörutíu daga frá því að parið var tekið höndum til að gefa út kæru. „Við vitum ekki nákvæmlega hvenær kæran verður gefin út þar sem ekki er ljóst hvort áramótin og þessi kjötkveðjuhátíð verði dregin frá.“ Rannsókn lögreglu á málinu er þó lokið.

Þegar búið er að gefa út ákæru verður farið fram á einhvers konar stofufangelsi eða lausn með ökklabandi að sögn Bjarna Hilmars. Hann segir utanríkisráðuneytið vinna sína vinnu afskaplega vel og er þeim þakklátur.

Bjarni Hilmar gerir ráð fyrir því að fara sjálfur út til Brasilíu en segir jafnframt að það verði að gerast á réttum tímapunkti. „Það þarf að gera boð á undan mér þannig að ég fái heimsóknartíma og þetta þarf ræðismaður Íslands í Brasilíu að sjá um.“

Hingað til hefur Bjarni Hilmar heyrt einu sinni í dóttur sinni Birgittu Gyðu en hún var tekin höndum ásamt kærasta sínum í borginni Fortaleza í Brasilíu hinn 26. desember síðastliðinn. Bjarni segir hana í rauninni afar heppna á brasilískan mælikvarða með vist en hún er nú í kvennafangelsi sem rúmar 350 konur en í því eru nú vistaðar um 700 konur.

Byrjuð að vinna á saumastofu í fangelsinu 

„Það sem er henni erfiðast er að þarna talar ekki nokkur maður ensku. Hún er búin að finna einn fanga af þessum 700 sem hún getur talað við.“ Hann segir átakanalegt að heyra í henni en það hafi komið sér á óvart hversu sterk hún hafi verið í símann. „Hún er nú farin að vinna í fangelsinu á saumastofu og farin að læra portúgölsku. Þetta virðist vera eitthvað smá manneskjulegt.“

Í lok janúar fór fulltrúi utanríkisráðuneytisins til Brasilíu til að kanna aðstæður. Bjarni Hilmar segir að fulltrúinn hafi fengið það í gegn að Birgitta Gyða fengi þrjá símatíma í viku, tíu til fimmtán mínútur í senn en fljótlega hafi það verið svikið og henni tilkynnt að hún fengi ekki nema einn símatíma á mánuði.

„Þetta mjakast á hraða snigilsins,“ segir Bjarni Hilmar en hann segir allt ganga afar hægt fyrir sig í Brasilíu. „Í sjálfu sér gerist eitthvað á hverjum degi hérna heima, eitthvað sem þarf að láta þýða og annað, en þarna úti gengur allt afar hægt.“

Fjölskylda Birgittu Gyðu hratt af stað söfnun  fyrir uppihaldi hennar í fangelsinu og lögmannskostnaði eftir að hún var sett í gæsluvarðhald um áramótin. Bjarni Hilmar segir söfnunina hafa gengið bærilega en enn sé ekki búið að safna nóg. Hann segir að í fyrstu hafi það fyrst og fremst verið vinir og fjölskylda sem lögðu sjóðnum lið en nú hafi margir velviljaðir aðilar lagt inn á reikninginn. Fyrir það er Bjarni Hilmar þakklátur.

Þeir sem vil leggja sjóðnum lið er bent á söfnunarsjóð Birgittu Gyðu í Íslandsbanka, Kirkjusandi númer: 515-14-414444. Kennitala sjóðsins er:  590116-0920.

Frétt mbl.is: „Hún er í okkar augum saklaus“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert