Útboð framkvæmda við Grensásveg samþykkt

Grensásvegur við Heiðargerði eftir endurnýjun.
Grensásvegur við Heiðargerði eftir endurnýjun. Teikning/Reykjavíkurborg

Borgarstjórn ákvað á fundi sínum í síðustu viku að heimila umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út verklegar framkvæmdir við Grensásveg. Þetta kemur fram í frétt á vef Reykjavíkurborgar.

Á fundi borgarstjórnar lögðu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins fram bókun þar sem þeir sögðu m.a. að umrætt verkefni væri ekki forgangsmál:

Reykjavíkurborg stendur frammi fyrir meiri rekstrarvanda en dæmi eru um í langri sögu borgarinnar. Meirihlutinn hefur samþykkt viðauka við fjárhagsáætlun vegna hagræðingaraðgerða að upphæð 1,8 milljarða kr. Mestur niðurskurður er á skóla- og frístundasviði og velferðarsviði. Fjárfrekum verkefnum er slegið á frest, biðlistar eru langir en þrenging Grensásvegar sem áætlað er að kosti 170 milljónir er nú sett í forgang. Reynslan kennir okkur að með þrengingu gatna mun bílaumferð leita inn í nærliggjandi íbúðahverfi þar sem börn eru að leik. Grensásvegur er ekki í flokki hættulegra gatna. Engu að síður er hægt að auka öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda með kostnaðarminni aðgerðum. Þrenging götunnar er ekki forsenda aukins öryggis og 170 milljón króna framkvæmd er ekki í neinum takti við þann niðurskurð sem unnið er að í öllu borgarkerfinu. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og flugvallarvina styðja hjólreiðaáætlun en á sama tíma og ekki eru til peningar til að sinna grunnþjónustu borgarinnar, biðlistar eru langir og fjármálin slæm þarf að forgangsraða fjármunum og þetta verkefni er ekki slíkt forgangsmál.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata bókuðu hins vegar að gerð hjólastíga við Grensásveg væri í samræmi við samþykkta hjólreiðaáætlun frá 2010 og 2015, sem þverpólitísk sátt hefði náðst um:

Gerð hjólastíga við Grensásveg er í samræmi við samþykkta hjólreiðaáætlun borgarinnar frá 2010 og endurskoðaða áætlun frá 2015. Um báðar áætlanir náðist þverpólitísk sátt í borgarstjórn og báðar áætlanirnar eru í samræmi við stefnu borgarinnar um eflingu vistvænni samgöngumáta. Fyrirhugaðar framkvæmdir við Grensásveg munu þó ekki bara nýtast ört vaxandi hópi borgarbúa sem nýta sér hjólreiðar sem samgöngumáta, heldur munu þær líka leiða til meira öryggis fyrir fótgangandi vegfarendur og íbúa í næsta nágrenni. Í dag skilur aðeins örmjó gangstétt bílaumferðina frá húsgörðum. Það hefur gerst trekk í trekk undanfarin misseri að bílstjórar missa stjórn á bílum sínum og bíll hafnar inn í húsagarði við götuna. Framkvæmdirnar fela í sér að akreinum fyrir bílaumferð er fækkað úr fjórum í tvær. Mælingar á umferðarþunga sýna að ekki er þörf á fjórum akreinum. Umferðarspár sýna að það verður ekki heldur þörf á þeim í framtíðinni. Breytingar sem verða á Grensásvegi munu leiða til þess að hægja mun á bílaumferðinni. Það er mjög æskilegt. Mælingar á umferðarhraðnum sýna að hann nær allt að 70 km á klukkustund. Það er allt of mikið. Vinna við hverfisskipulag Bústaða og Háaleitishverfis leiðir í ljós að hverfin eru umlukin miklum umferðaræðum sem hafa skaðleg áhrif á lífsgæði íbúanna. Undanfarið hefur verið unnið markvisst að því að draga úr þessum neikvæðu áhrifum. Þeirri vinnu verður haldið áfram. Breytingarnar á Grensásvegi eru liður í því.

Samkvæmt fréttinni á vef Reykjavíkurborgar eru eftirfarandi breytingar fyrirhugaðar á Grensásvegi:

  • Í stað akreina sem hverfa verður gerður tveggja metra breiður hjólastígur beggja vegna á milli götu og gangstéttar. Gangstétt austan megin götunnar verður 2.1-2.4 m breið en gangstétt vestan megin götunnar verður 2,5 m að breidd. Á milli gangstéttar og hjólastígs verður hellulögð 0.5 m breið ræma. Hellulagða ræman og hjóla- og göngustígurinn eru samtals 4.6 til 4.9 m að austanverðu en 5.0 m að vestanverðu.
  • Umferðarljós sem eru á gatnamótum við Hæðargarð verða þar áfram og einnig gangbrautarljós sem eru við Breiðagerði en stjórnbúnaður þeirra verður endurnýjaður.
  • Ný gangbrautarljós verða sett norðan við Heiðargerði
  • Biðstöðvar strætó eru á þremur stöðum, þ.e. þrjár hvoru megin götunnar. Gert er ráð fyrir að biðstöð strætó rjúfi hjólastíginn þannig að strætó leggi að gangstétt. Þetta er gert með tilliti til aksturs neyðarbíla en hætta er talinn á of mikilli töf þeirra ef vagn stoppar í götunni. Það fyrirkomulag má endurskoða þegar bráðamóttaka flyst frá Borgarspítala í Landspítala við Hringbraut.
  • Sex til sjö sentimetra hæðarmunur verður á milli götu og hjólastígs þannig að almenn umferð geti auðveldlega vikið upp á hjólastíginn ef neyðarbíll er á ferð.
  • Gangstéttar sem eru ónýtar verða endurnýjaðar.
  • Götulýsing verður endurnýjuð. Núverandi ljósastaurar í gangstétt verða fjarlægðir og nýjum lægri ljósastaurum, 6.3 m háum, verður komið fyrir í hellulagðri ræmu á milli hjólastígs og gangstéttar beggja vegna götunnar.
  • Framhjáakstur á umferðarljósum við gatnamót Grensásvegar og Bústaðavegar verður aflagður til að tryggja sem best öryggi hjólreiðamanna.
  • Gróður verður í miðeyjunni á stöðum sem ekki er hætta á að vegfarendum verði byrgð sýn.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert