Kynjaverur út um borg og bý

Hafnfirskar kynjaverur tilbúnar í öskudagsfjör
Hafnfirskar kynjaverur tilbúnar í öskudagsfjör

Það mátti sjá kynjaverur skjótast um snemma í morgun og virtust flestar þeirra stefna á grunnskóla landsins. Í dag er öskudagurinn og má búast við því að það verði fjör víða og mikið sungið.

Löng hefð er fyrir því á Akureyri að búa sig upp og syngja fyrir gesti og gangandi á þessum degi. Jafnframt er kötturinn sleginn úr tunnunni. Undanfarin ár hafa fleiri tekið upp þennan sið og er mikið um dýrðir í grunnskólum landsins. Eftir skóla fara síðan margir á stjá og heimsækja fyrirtæki og stofnanir þar sem sungið er gegn gjaldi, það er sælgæti eða öðru góðgæti. 

Öskudagur er upphafsdagur lönguföstu, miðvikudagurinn í 7. viku fyrir páska. Öskudagur kemur fyrir í íslenskum handritum frá 14. öld og leiða má líkum að því að það sé enn eldra. Þar má sjá að dagurinn gegnir sama hlutverki hér og í öðrum katólskum sið í Evrópu, hann er dagur iðrunar fyrir gjörðar syndir. Langafasta átti að vera tími íhugunar og góðrar breytni, auk föstunnar að sjálfsögðu, sem á Íslandi takmarkaðist yfirleitt við kjötmeti en gat einnig náð til fiskvöru og mjólkurafurða. Ef langt var gengið hljóðaði mataræðið upp á vatn og brauð.

 Í Evrópu tíðkuðust, og tíðkast enn þar og víða í heiminum, sérstakar kjötkveðjuhátíðir síðustu dagana fyrir lönguföstu, miklar útihátíðir og skemmtanir. Föstuinngangur fer saman við vorkomu í suðlægari löndum og þar hafa heiðin hátíðahöld örugglega haft áhrif sem síðan hafa borist til norðlægari landa. Dagarnir fyrir upphaf föstu voru líka hefðbundnir uppgjörsdagar skatta víða í Evrópu, sem gjarnan voru greiddir í búfénaði og matvælum. Hjá aðalsmönnum hefur því verið til ógrynni matar á þessum tíma sem helst þurfti að nýta sem fyrst vegna bágra aðstæðna til matvælageymslu. Heldra fólk gerði því vel við sig í mat á þessum tíma, og kirkjunnar menn og aðrar stéttir létu sitt ekki eftir liggja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert