Álagning gatnagerðargjalda óheimil

Framhaldsskóli Mosfellsbæjar tók til starfa á vorönn 2014.
Framhaldsskóli Mosfellsbæjar tók til starfa á vorönn 2014. Ljósmynd/Framhaldsskóli Mosfellsbæjar

Mosfellsbæ var óheimilt að krefja ríkið um rúmlega 100 milljónir í gatnagerðargjöld vegna byggingu Framhaldsskólans í Mosfellsbæ og í kjölfarið skuldajafna þá kröfu við innheimtu ríkisins á byggingarkostnaði, samkvæmt dómi héraðsdóms. Bæjarstjóri segir dóminn vonbrigði og býst við áfrýjun.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur féll í gær og var Mosfellsbær dæmdur til að endurgreiða ríkinu 100.208.244 krónur.

Höfuðágreiningur ríkis og bæjar í málinu er álagning gatnagerðargjalda á framhaldsskóla en í lögum er sveitarfélögum gert skylt að afhenda lóðir til byggingar þeirra „án endurgjalds.“ Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ er fyrsti skólinn sem reistur er samkvæmt núgildandi lögum, en bæði lögum um gatnagerðargjöld og byggingu framhaldsskóla hefur verið breytt á síðustu árum. Málið gæti því haft fordæmisgildi þegar kemur að byggingu annarra framhaldsskóla.

Í lögum er gatnagerðargjaldið flokkað sem sértækur skattur en í dómnum eru sértæk lög um framhaldsskóla og endurgjaldslausa afhendingu lóðar talin ganga framar almennum lögum um gatnagerðargjöld þar sem kveðið er á um innheimtu þeirra.

Mosfellsbæ er því gert að greiða ríkinu 100,2 milljónir kr. auk dráttarvaxta og verðbóta, og 1 milljón kr. í málskostnað.

Snýr að öllum sveitarfélögum á landinu

„Dómurinn er frá okkar hlið séð vonbrigði,“ sagði Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar í samtali við mbl.is. „Þetta verður tekið fyrir í bæjarráði í fyrramálið og ég geri ráð fyrir að dómnum verði áfrýjað til hæstaréttar. Okkur fannst málstaður Mosfellsbæjar sterkur í þessu máli: Að lögin kvæðu á um það að greiða skyldi lögbundna skatta af svona húsi sem og annarra, sem ríkið sjálft ákveður. Okkur finnst líka svolítið skrýtið að sami aðilinn ákveði gjöldin og undanþegi sjálfan sig frá þeim.“

Talsverðar fjárhæðir eru í húfi fyrir sveitarfélögin og mun Mosfellsbær því halda málinu til streitu. „Ég held það sé nauðsynlegt að fara með þetta fyrir hæstarétt. Þetta snýr að öllum sveitarfélögum á landinu. Ég geri ráð fyrir því að ég muni leggja leggja það til ásamt bæjarlögmanni að þessu verði áfrýjað til hæstaréttar. Það er nauðsynlegt að fá úr því skorið á æðsta dómstigi hvað er rétt og rangt í þessu,“ sagði Haraldur.

Haraldur Sverrisson
Haraldur Sverrisson mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert