Vilja að Alþingi ræði hermálið

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG.
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG. mbl.is/Árni Sæberg

„Mér líst náttúrulega ekki á þetta. Bæði líst mér illa á aukna viðveru herliðs hér á landi og síðan vekur þetta áhyggjur af stöðu alþjóðamála. Ég var nú að vonast til þess að þegar herinn fór á sínum tíma að hann væri endanlega farinn,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs vegna frétta af áformum bandarískra stjórnvalda um að auka varnarviðbúnað sinn hér á landi.

Fulltrúa VG í utanríkismálanefnd Alþingis, Steinunn Þóra Árnadóttir, hefur óskað eftir því að fundur verði tafarlaust haldinn í nefndinni með Gunnari Braga Sveinssyni utanríkisráðherra þar sem hann verði beðinn að útskýra stöðu málsins fyrir nefndarmönnum. Katrín segir mikilvægt að þingmenn geti meðal annars lagt mat á það hvort fyrirhuguð aukin hernaðarumsvif rúmist innan þess samkomulag sem gert hafi verið við Bandaríkjamenn.

„Það er mjög óþægilegt að lesa um svona mál fyrst í erlendum fjölmiðlum enda á þetta að vera mál sem ætti að vera rætt í utanríkismálanefndinni. En fyrst og fremst líst mér mjög illa á það ef stefnt er að auknum hernaðarumsvifum á nýjan leik,“ segir Katrín. Spurð hvort hún telji aðstæður í heiminum réttlæti auknar varnarráðstafanir segist Katrín að það hún telji ekki að aukin hernaðarumsvif séu til þess fallin að draga úr spennu á milli ríkja.

„Ég hef auðvitað talað fyrir því opinberlega að það sé mjög mikilvægt, ekki síst núna þegar við horfum upp á mjög ófriðlegt ástand víða í heiminum, að lögð væri mikil áhersla á að eiga pólitísk samtöl og reyna að finna pólitískar lausnir til að mynda í samskiptum við Rússa svo dæmi sé tekið. Frekar en farið sé alveg í gamla kaldastríðsfarið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert