„Er þetta það sem við viljum?“

Steinunn Þóra Árnadóttir þingmaður og fulltrúi Vinstri grænna í utanríkismálanefnd.
Steinunn Þóra Árnadóttir þingmaður og fulltrúi Vinstri grænna í utanríkismálanefnd. mbl.is/Ómar

Íslendingar eiga að leggja sitt af mörkum við að draga úr vígbúnaði frekar en að kynda undir átökum með þátttöku í vígbúnaðarkapphlaupi hervelda. Þetta segir Steinunn Þóra Árnadóttir fulltrúi Vinstri grænna í utanríkismálanefnd.

Eftir að Steinunn hafði óskað eftir fundi nefndarinnar kom hún saman í dag til að ræða varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra kom þá einnig á fund hennar til að útskýra áform Bandaríkjahers um breytingu flugskýlis á Keflavíkurflugvelli.

Frétt mbl.is: Voru ekki upplýst um áformin 

Fyrsta skref í átt að auknum umsvifum

Í samtali við mbl.is segir Steinunn að á fundinum hafi komið fram að ekki standi til að Bandaríkjaher verði hér með fasta viðveru eða eitthvað í líkingu við það sem var fyrir árið 2006.

„En ég held að þetta sé fyrsta skrefið. Ráðherrann hefur sjálfur sagt að bætt verði við fjórðu reglulegu loftrýmisgæsluæfingunni og herinn er að setja mikla peninga í að gera upp flugskýli hér á landi. Það bendir til þess að hér verði aukin umsvif þó svo við vitum ekki ennþá á hvaða skala þau verða,“ segir Steinunn.

Hún segir það mikilvægt að umræðunni sé svo haldið áfram í þjóðfélaginu jafnt sem inni á Alþingi, ekki einungis í utanríkismálanefnd. Hefur hún óskað eftir sérstakri umræðu um málið á Alþingi þar sem allir flokkar geti haft aðkomu.

Frá heræfingu á Keflavíkurflugvelli.
Frá heræfingu á Keflavíkurflugvelli. mbl.is/ÞÖK

Vilja að Íslendingar tali fyrir friði

„Mér finnst brýnt að við sem samfélag setjum þetta niður fyrir okkur; er þetta það sem við viljum? Viljum við fara í aukna uppbyggingu uppi á velli?“ spyr Steinunn og bætir við að svar sitt og Vinstri grænna sé skýrt nei. 

„Við teljum að framlag okkar til heimsmálanna, og þeirrar erfiðu stöðu sem þar er uppi, eigi miklu frekar að vera að tala fyrir friði en ekki verða með þessum hætti þátttakendur í auknu vígbúnaðarkapphlaupi á milli hervelda.“

Taki ekki þátt í að kynda undir átökum

„Þó stórt bil sé á milli þeirra umsvifa sem eru núna og þeirra sem þá voru, þá sé ég þetta bara fyrir mér sem fyrsta skref hersins í þá átt, að stækka þessi flugskýli til að geta verið með stærri og öflugri vélar sem geta þá haft hér viðveru, og þá mögulega lengri viðveru,“ segir Steinunn og bendir á að alþjóðamál sem þessi skipti alla máli.

„Mér finnst mikilvægt að við Íslendingar, sem herlaus þjóð, leggjum frekar okkar af mörkum við að draga úr vígbúnaði heldur en að taka þátt á vettvangi stórveldanna og NATO í því að kynda undir átökum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert