Framleiðslufyrirtæki Hross í oss ekki gjaldþrota

Friðrik Þór Friðriksson
Friðrik Þór Friðriksson mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Félagið Hrossabrestur ehf, í eigu þeirra Friðriks Þórs Friðrikssonar og Benedikts Erlingssonar, er ekki gjaldþrota þar sem engar gjaldfallnar skuldir eru fyrir hendi í félaginu. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Friðriki Þór nú í kvöld.

Í tilkynningunni segir að Tollstjóri hafi krafist gjaldþrotaskipta vegna áætlaðra skatta sem nú er búið að krefjast leiðréttingar á. Dregist hafi að senda inn skattaframtöl fyrir félagið en nú sé búið að senda inn framtöl sem sýna að félagið skuldar enga skatta.

Því sé engin krafa lengur að baki gjaldþrotaskiptabeiðninni og er unnið að því að fá gjaldþrotaskiptin felld niður.

Friðrik segir að vegna mikillar fjarveru hans erlendis undanfarna mánuði fóru þessar aðgerðir framhjá honum þannig að honum gafst ekki færi á að grípa til aðgerða í tæka tíð.

„Allt þetta ferli er auðvitað afar óheppilegt og vil ég því biðjast forláts gagnvart þeim aðilum sem hér hafa átt hlut að máli og öllum þeim fjölda hæfileikafólks sem komu að gerð myndarinnar eða studdu framleiðslu hennar og framgang með einhverjum hætti,“ segir í tilkynningunni.

Þá vill Friðrik Þór árétta að ekki sé um persónulegt gjaldþrot að ræða. 

Tilkynningin í heild sinni:

Yfirlýsing frá Friðriki Þór Friðrikssyni vegna fréttar í Morgunblaðinu í dag um gjaldþrot Hrossabrests ehf.

Hrossabrestur ehf er í raun ekki gjaldþrota þar sem engar gjaldfallnar skuldir eru fyrir hendi í félaginu. Tollstjóri krafðist gjaldþrotaskipta vegna áætlaðra skatta sem nú er búið að krefjast leiðréttingar á. Dregist hafði að senda inn skattaframtöl fyrir félagið. Búið er að senda inn framtöl sem sýna að félagið skuldar enga skatta. Því er engin krafa lengur að baki gjaldþrotaskiptabeiðninnar. Unnið er að því að fá gjaldþrotaskiptin felld niður. Vegna mikillar fjarveru mina erlendis undanfarna mánuði fóru þessar aðgerðir fram hjá mér þannig að mér gafst ekki færi á að grípa til aðgerða í tæka tíð.

Allt þetta ferli er auðvitað afar óheppilegt og vil ég því biðjast forláts gagnvart þeim aðilum sem hér hafa átt hlut að máli og öllum þeim fjölda hæfileikafólks sem komu að gerð myndarinnar eða studdu framleiðslu hennar og framgang með einhverjum hætti.

Fyrirsögn fréttarinnar má skilja svo að um persónulegt gjaldþrot mitt sé að ræða. Svo er að sjálfsögðu ekki og fer ég fram á að það sé áréttað.

Sjá frétt mbl.is: Framleiðandi Hross í oss gjaldþrota

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert