Upplýsa verði um söluna til að tryggja traust

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Kristinn

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, sendi í dag Bankasýslu ríkisins bréf vegna sölu Landsbankans á eignarhluti sínum í Borgun. Bjarni segir að vissast sé, áður en lengra er haldið með söluferli bankasýslunnar á eignarhluti í Landsbankanum, að allar upplýsingar um söluna á Borgun liggi fyrir og málið afgreitt með þeim hætti að traust til bankans og stjórnenda hans verði tryggt.

Bjarni segir að samkvæmt þeim upplýsingum og gögnum sem vísað hefur verið til í umræðunni um söluna á Borgun megi ætla að það verð sem bankinn fékk fyrir eignarhlut sinn hafi verið mun lægra en eðlilegt getur talist. „ Jafnframt hefur verið gagnrýnt að við sölumeðferð bankans á hlutnum hafi ekki verið gætt að sjónarmiðum um gagnsæi og jafnræði. Er sú staða sem upp er komin alvarleg, en Landsbankinn er í senn stærsta fjármálafyrirtæki landsins og verðmætasta félag íslenska ríkisins.“

Hann bendir á að Bankasýslu ríkisins hafi verið komi á fót til þess að ríkið væri trúverðugur eigandi fjármálafyrirtækja og að tryggt væri að ekki yrðu höfð pólitísk afskipti af rekstri slíkra fyrirtækja.

Þótt aðkoma fjármála- og efnahagsráðherra að daglegum málefnum einstakra fjármálafyrirtækja í ríkiseigu sé verulega takmörkuð að lögum, er honum ætlað að setja félögunum eigendastefnu þar sem gerð er grein fyrir almennri stefnumörkun eiganda. Í samræmi við það hefur fjármálafyrirtækjum í eigu ríkisins verið sett sérstök eigendastefna sem gildir um öll þau félög sem Bankasýslan fer með eignarhlut í.  Kjarni stefnunnar byggir á að umrædd fjármálafyrirtæki séu rekin með faglegum og gagnsæjum hætti þannig að almennt ríki traust á stjórn og starfsemi. Í eigendastefnunni er sérstaklega áskilið að  fjármálafyrirtæki skuli koma sér upp innri verkferlum um lykilþætti í starfsemi sinni, þ.m.t. sölu eigna og að mikilvægt sé að slíkir ferlar séu skilvirkir og gagnsæir.“

„Ákvörðun um næstu skref varðandi sölu eignarhluta í Landsbananum verður fyrst tekin að fengnum tillögum Bankasýslunnar, en ljóst er að sú ákvörðun mun velta á fjölmörgum atriðum og mati á því hvernig heildarhagsmunum ríkisins er best fyrir komið.“

„Það er mat ráðherra að umræða undanfarinna vikna vegna sölu Landsbankans á hlut sínum í Borgun sé til þess fallin að skaða bankann.  Því sé nauðsynlegt áður en lengra er haldið í því ferli að hvaðeina er máli skiptir og varðar sölu Landsbankans á Borgun verði upplýst og málið afgreitt með þeim hætti að traust til bankans og stjórnenda hans verði tryggt,“ segir Bjarni í bréfinu.

Sjá bréfið í heild sinni á vef Fjármálaráðuneytisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert